Miðvikudagur 29. júní 2005

180. tbl. 9. árg.

Þegar ný lög um fæðingarorlof voru samþykkt á Alþingi með stuðningi allra stjórnmálaflokka vorið 2000 varaði Vefþjóðviljinn ekki síst við þremur atriðum í hinu nýja kerfi.

1. Kostnaður er of mikill og vanmetinn.

Útgjaldaaukningin umfram það sem áætlanir fjármálaráðuneytisins gerðu ráð fyrir reyndist 180%. Við nýju lögin átti kostnaður ríkissjóðs við fæðingarorlof að aukast um 1,5 milljarða króna. Kostnaðaraukningin varð hins vegar ekki 1,5 milljarðar eins og ráð var fyrir gert heldur 4,2 milljarðar króna. Umframkostnaðurinn er með öðrum orðum 2.700 milljónir króna á hverju einasta ári sem þetta kerfi fær að standa. Þetta er vafalaust ein mesta framúrkeyrsla í sögu ríkissjóðs, hvort sem litið er á prósentur eða krónur, en þar sem allir stjórnmálaflokkarnir deila ábyrgð af þessu hefur engin fyrirspurn verið gerð um þetta í þinginu, engin upphlaup í fjölmiðlum. Morgunblaðið studdi lögin af miklum móð á sínum tíma og hefur flutt miklar fréttir af því að það telur kostum þess síðan. Blaðið hefur hins vegar aldrei gert þessu ótrúlega fjármálahneyksli skil. Stundum mætti halda að fjölmiðlar séu kallaðir „fjórða valdið“ af því þá vantar eitt skilningarvitið. Það gæti verið hvert þeirra sem er.

2. Kerfið verður misnotað.

Í Tíund fréttablaði ríkisskattstjóra síðasta haust var grein um aukið eftirlit skattyfirvalda með nýbökuðum foreldrum. Í greininni sagði meðal annars:

Leikið hefur grunur á að foreldrar hafi með ýmsum hætti leitast við að hafa áhrif á tekjur sínar til hækkunar á því tímabili þegar þeim er ákvarðað fæðingarorlof.

Og svo einnig:

Grunur hefur vaknað um að foreldrar sem starfa á þeim tíma sem þeir eru skráðir í fæðingarorlof fái launagreiðslurnar greiddar á næstu mánuðum á eftir. Verði foreldrar uppvísir að slíku broti varðar það sektum.

Eins og allir vita er vonlaust að eltast við það hvort þeir tíuþúsund sem verða foreldrar á ári hveri eru að störfum á meðan fæðingarorlofsgreiðslurnar eru að berast frá Tryggingastofnun. Þetta kerfi að galopið fyrir misnotkun og það er vafalaust ein skýring þess að kostnaðurinn fór alveg úr böndunum.

3. Tekjutenging bóta er ranglát.

Vefþjóðviljinn gagnrýndi mjög að bætur í fæðingarorlofi yrðu tekjutengdar. Hann taldi og telur enn að ef ríkið vill styðja foreldra eigi að styðja þá jafnt. Auk þess yrði þetta alltof dýrt. Á það var ekki hlustað og margir töldu það algjört grundvallaratriði að tekjutengingin mætti ekki vera minni en 80% ef kerfið ætti að hafa þau áhrif á hegðun fólks sem því var ætlað. Nú hefur hins vegar verið vikið frá þessu mikla grundvallaratriði stuðningsmanna fæðingarorlofskerfisins. Búið er að setja þak á greiðslur við 480 þúsund á mánuði svo þeir sem eru með 750 þúsund krónur í tekjur fá nú „aðeins“ 64% af launum. Þeir sem eru með 1.200 þúsund í mánaðartekjur fá 40%. Að auki er búið að breyta viðmiðunartímabilinu til útreiknings á tekjum manna. Nú getur viðmiðunartímabilið verið tveimur árum áður en taka orlofs hefst og í flestum tilvikum þýðir það að menn fá minna en 80% af þeim launum sem þeir hafa þegar taka orlofs hefst.