Þriðjudagur 28. júní 2005

179. tbl. 9. árg.

H versu oft fá menn ekki að heyra fullyrðingar um „óútskýrðan launamun kynjanna“? Baráttumenn nefna miklar prósentutölur um þennan mun, framsóknarráðherrar strengja heit, leiðarahópur Morgunblaðsins fær slag. Skólastjórinn á Bifröst slær öðrum við í rannsóknarmennsku og hringir í gamla nemendur og spyr þá hvað þeir fái í laun og þær skýringalausu launatölur fá hann til þess að skammast sín fyrir hneisuna. Ver síðan frammistöðuna með innhaldslausum útúrsnúningi sem að sjálfsögðu er endurbirtur í Staksteinum sem sérstök speki sem hefði farið á baksíðuna ef þar hefði ekki þurft að slá því upp að aðstoðarbæjarstjórinn í Uppsölum hafði sagst vera nokkuð hrifinn af því sem hann hefði heyrt af íslensku fæðingarorlofslögunum.

Af og til reyna aðrir menn að benda á, að marktæk gögn um þennan mikla launamun eru nú töluvert minni en þetta fólk heldur. Ástæður fyrir því að tveir starfsmenn ná mismunandi samningum við vinnuveitanda sinn geta verið svo ótal margar, og margar þar að auki mjög persónulegar, að það er ákaflega ólíklegt að þær verði leiddar fram í rannsóknum. Starfsmenn gera mismiklar kröfur, vilja leggja mismikið á sig, eru misverðmætir fyrir vinnuveitanda, og svo framvegis. Það er ákaflega erfitt að slá því föstu að einhverjir tveir starfsmenn séu „jafn hæfir“ eða vinni „sama starf“. Það er oft hægt að segja að tveir starfsmenn séu á pappírnum jafn hæfir, með svipaða reynslu, menntun og slíkt, en í raunveruleikanum eru starfsmenn mismunandi. Það er hægt að mæla hvað hver starfsmaður fær í laun, en það er miklu erfiðara að mæla hvers virði hver og einn starfsmaður er vinnuveitandanum í raun og veru.

Á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins hefur verið greint frá því, að sænsku atvinnulífssamtökin hafi reglulega safnað saman upplýsingum um launagreiðslur til hálfrar annarrar milljónar starfsmanna aðildarfyrirtækjanna. Nú hafi verið unnin ýtarleg rannsókn á þessum upplýsingum og niðurstaðan sé sú, að ekkert bendi til þess að konum sé mismunað í launum. Vissulega mun launamunur vera í Svíþjóð milli karla og kvenna. En á vef sænsku atvinnulífssamtakanna sé það haft eftir Håkan Eriksson, jafnréttisfulltrúa, „að 15-20% munur á launum kynjanna skýrist að mestu leyti af þáttum á borð við aldur, starfsval, menntun og gerð fyrirtækja. Að teknu tilliti til þessara þátta sé munurinn 4,8% en minnki enn ef skoðuð er ábyrgð, t.d. fjöldi undirmanna eða fjárhæðir sem ábyrgð er borin á, eða starfsaldur hjá viðkomandi fyrirtæki. Meðal stjórnenda, sérfræðinga, skrifstofu- og afgreiðslufólks er launamunurinn 6,5% sé hann leiðréttur fyrir framangreindum þáttum og 2,2% hjá verkafólki og iðnaðarmönnum. Hann tekur þó fram að ekki sé hægt að útiloka að til séu dæmi um að konum sé mismunað í launum innan einstakra fyrirtækja.“

Ætli það geti nú ekki verið að sama ástand sé á Íslandi? Að það séu að jafnaði eðlilegar skýringar á því þar sem launamunur sé milli starfsmanna? Hvernig væri nú að velta því fyrir sér, áður en menn hefja næstu árásarhrinu sína á atvinnulífið?