Helgarsprokið 19. júní 2005

170. tbl. 9. árg.

Í nýrri grein sem birtist í The Wall Street Journal fyrir rúmri viku rifjar Milton Friedman upp baráttuna fyrir einkarekstri og valfrelsi í skólakerfinu. Friedman segir í upphafi greinarinnar að hann hafi ekki grunað, þegar hann ritaði greinina „Hlutverk hins opinbera í menntamálum“ árið 1955 að hún yrði til þess að hann yrði baráttumaður fyrir meiriháttar endurbótum á menntakerfinu eða að greinin myndi leiða til þess að hann og  eiginkona hans, Rose Friedman, settu á fót stofnun um valfrelsi foreldra. Það geta ekki allir rifjað upp hálfrar aldar baráttu, en Milton Friedman á auðvelt með það. Hann fæddist árið 1912 og man því tímana tvenna.

Friedman, sem er nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur alla tíð í skrifum sínum fjallað um breiðara svið en flestir hagfræðingar gera. Þannig segir hann að áhugasvið sitt hafi verið heimspeki hins frjálsa samfélags og að menntun hafi verið það sem hann fór ungur að fjalla um, en síðan hafi hann skrifað um fleira. Afraksturinn hafi orðið bókin Capitalism and Freedom, sem kom út á íslensku í þýðingu Hannesar H. Gissurarsonar undir heitinu Frelsi og framtak. Friedman segir að hann hafi bent á að ríkið hafi sinnt þremur megin hlutverkum á sviði menntunar. Það hafi sett lög um skólaskyldu, það hafi fjármagnað skólakerfið og það hafi rekið skólana. Friedman taldi nokkra réttlætingu fyrir skólaskyldu og fjármögnun ríkisins á skólunum, en að mun erfiðara væri að réttlæta ríkisrekstur, eða í raun þjóðnýtingu, á skólunum. Auðvelt væri að skilja rekstur skólanna frá skólaskyldunni og fjármögnuninni. Ríkið gæti fjármagnað menntunina með því að láta foreldra fá ávísun upp á ákveðna upphæð á ári sem foreldrarnir gætu eingöngu varið til menntunar barnanna. Með því að taka upp svona ávísanakerfi væri verið að snúa af braut þjóðnýtingar í skólakerfinu.

„Ef þeir opinberu fjármunir sem fara í skólakerfið færu beint til foreldra sem gætu notað þá til að greiða fyrir menntun barnanna í þeim skólum sem foreldrarnir kysu sjálfir, yrði til mikil fjölbreytni í skólakerfinu til að svara eftirspurninni.“

Afnám þjóðnýtingar í skólakerfinu, segir Friedman, yrði til þess að auka val foreldra. Ef þeir opinberu fjármunir sem fara í skólakerfið færu beint til foreldra sem gætu notað þá til að greiða fyrir menntun barnanna í þeim skólum sem foreldrarnir kysu sjálfir, yrði til mikil fjölbreytni í skólakerfinu til að svara eftirspurninni. Á þessu sviði eins og öðrum væru fyrirtæki í samkeppni líklegust til að veita neytendum það sem þeir vilja á sem hagkvæmastan hátt. Friedman segir að þrátt fyrir að skrif sín um þetta efni hafi vakið nokkra athygli meðal fræðimanna og almennings viti hann ekki um neina tilraun til að innleiða ávísanakerfi í menntamálum fyrr en í tíð ríkisstjórnar Richards M. Nixons, sem var kjörinn forseti árið 1968. Þetta hafi leitt til tilraunar sem hafi lofað góðu, en horfið hafi verið frá henni vegna andstöðu verkalýðshreyfingar kennara og stjórnenda í menntakerfinu, en þessir aðilar hafi leikið aðalhlutverk í andstöðunni við slíka kerfisbreytingu næstu áratugi.

Friedman segir að það sem hafi helst ýtt undir áhuga á ávísanakerfinu hafi verið hnignun menntunar, sem hafi sérstaklega átt sér stað eftir 1965 þegar félag kennara hafi breytt sér úr fagfélagi í verkalýðsfélag. Áhyggjur af gæðum menntunar hafi leitt til þess að gefin hafi verið út skýrsla árið 1983 þar sem niðurstaðan hafi verið sú, að fram til þess tíma hafi hver kynslóð í Bandaríkjunum notið betri menntunar en næsta kynslóð á undan, en þetta hafi alls ekki lengur verið raunin, þvert á móti hafi menntuninni hrakað. Og Friedman segir að þrátt fyrir mikla aukningu ríkisútgjalda til menntunar frá árinu 1970 hafi gæðin frekar minnkað en hitt og lestrargeta sé að öllum líkindum minni nú í byrjun 21. aldar en hún hafi verið öld fyrr.

Eina afleiðingu þessa segir Friedman vera tilraun með valkosti á borð við ávísanakerfi og skattafrádrátt í nokkrum ríkjum og að meiriháttar lagalegri hindrun hafi verið rutt úr vegi þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfesti lögmæti ávísanakerfis í Cleveland árið 2002. Allar þær tilraunir sem gerðar hafi verið séu hins vegar takmarkaðar og nái aðeins til lítils brots barna í Bandaríkjunum. Allan þann tíma sem liðinn er frá því að baráttan fyrir valfrelsi í skólakerfinu hófst segist Friedman aftur og aftur hafa orðið fyrir vonbrigðum með það hve harða og einbeitta andstöðu verkalýðsfélög kennara og stjórnendur í menntakerfinu hafa sýnt við þessar nauðsynlegu umbætur. Hann nefnir dæmi frá árunum 1993 og 2000 þar sem ávísanakerfi í menntamálum hafi verið lagt í dóm kjósenda. Framan af hafi stuðningur við breytinguna verið mikill, en svo hafi andstæðingar hennar lagt í vel fjármagnaða baráttu og ekki verið vandir að meðulum. Í sjónvarpi hafi verið spilaðar auglýsingar þar sem því hafi verið haldið fram að ávísanakerfið mundi fara illa með fjármál hins opinbera, þegar hið gagnstæða hafi verið raunin. Kennarar hafi látið nemendur fara heim til foreldra sinna með villandi upplýsingar gegn kerfisbreytingunni og hvers kyns sóðaleg vinnubrögð hafi verið viðhöfð. Nægt fjármagn hafi verið fyrir hendi til þeirra aðgerða. Með þessum óvönduðu aðferðum hafi tekist að snúa kjósendum og það skýri hvers vegna svo hægt hafi gengið að koma á kerfisbreytingum á stórum svæðum.

„Góðu fréttirnar eru,“ segir Friedman í lok greinar sinnar, „að þrátt fyrir þessa erfiðleika hefur áhugi og stuðningur almennings við ávísanakerfi og skattaafslátt haldið áfram að aukast. Tillögur um lagabreytingar sem fela í sér að greiðslur fari beint til nemenda en ekki skólanna eru til skoðunar í um 20 fylkjum.“ Friedman er bjartsýnn um framhaldið og reynslan hefur augsýnilega kennt honum þolinmæði. Hann segir að fyrr eða síðar muni almennt ávísanakerfi ná í gegn í einu einu eða fleiri fylkjum og þegar það gerist muni samkeppni á sviði menntunar á einkamarkaði þjóna foreldrum, sem geti sjálfir valið sér þann skóla sem þeir telja bestan fyrir börn sín. Þá muni sjást hvernig þetta muni umbylta skólakerfinu.