En eins og Hannes klifar nokkuð á þá leyfði ég mér hins vegar á sínum tíma að draga í efa eindregið tilkall hans til að teljast óháður og hlutlaus sérfræðingur í verkum Laxness í ljósi fyrri skrifa hans um skáldið. Síðan mér varð það á að skrifa þetta hefur Hannes hins vegar rannsakað Laxness baki brotnu og til dæmis dregið margt fram úr rittengslarannsóknum Eiríks Jónssonar og fleiri – og fabúlerað sumt sem við hljótum að lesa með viðeigandi fyrirvörum í ljósi þeirra átaka sem hann stendur einatt í við mann og annan. |
– Guðmundur Andri Thorsson, Fréttablaðinu 17. júní 2005. |
Ætli nokkur maður standi eða hafi staðið í átökum við Hannes Hólmstein Gissurarson? Þetta er sennilega eingöngu á hinn veginn. Það er þessi Hannes sem einlægt stendur í átökum við mann og annan. Að minnsta kosti þykir Guðmundi Andra Thorssyni sem einhver „við“ hljótum að lesa verk Hannesar með fyrirvörum sem ekki þurfi að útskýra nánar, slík sé átakasaga Hannesar. En Guðmundur Andri virðist hins vegar ekki þeirrar skoðunar að vissara sé að lesa verk einhverra annarra manna með sömu fyrirvörum, svo ekki er víst að neinir aðrir en Hannes hafi staðið í þessum átökum.
Í meira en þrjátíu ár hefur Hannes Hólmsteinn Gissurarson verið boðberi frjálslyndra viðhorfa á Íslandi. Þeir sem ungir eru í dag munu sjálfsagt margir eiga erfitt með að gera sér grein fyrir því hvernig þjóðfélagsbaráttan var hér á landi fyrir aðeins örfáum árum. Það eru ekki mjög mörg ár síðan Alþýðubandalagið felldi þjóðnýtingu úr stefnuskrá sinni. Það eru ekki nema 20 ár síðan hart var barist um það hvort aðrir en ríkið mættu útvarpa og sjónvarpa. Enginn fulltrúi Samfylkingarflokkanna Alþýðuflokks, Alþýðubandalagsins og Kvennalistans studdi frjálst útvarp. Höft og bönn voru á ótal sviðum. Hart var sótt að þeim sem boðuðu frelsi, hvar sem sú barátta fór fram. Fáir fengu meiri gusur en Hannes Hólmsteinn Gissurarson og ófáar komu frá þeim sem nú eru vinsælir álitsgjafar, sérstakir viskubrunnar um frelsi og lýðræði.
Og þess er krafist að fólk lesi með sérstökum fyrirvara það sem kemur frá Hannesi, vegna þeirra átaka sem hann stendur einatt í við mann og annan. Sennilega var það líka Hannes sem lokaði áður gefnum bókum og gögnum fyrir ættingjum Halldórs Laxness. Sennilega var það Hannes sem stefndi ættingjunum fyrir bæði siðanefnd Háskóla Íslands og líka fyrir héraðsdóm. Að minnsta kosti er það Hannes en ekki aðrir sem er gerður tortryggilegur vegna átaka. Það er Hannes en ekki þeir sem börðust gegn frelsi borgaranna, sem er kallaður öfgamaður. Yfirleitt af gömlum vinstrimönnum sem nú fylla fjölmiðlana, hvort sem er þá frjálsu eða ríkisreknu, af heimsmynd sinni á hverjum degi.
Ekki veit Vefþjóðviljinn hvort Hannes Hólmsteinn hefur nokkru sinni kallað sig hlutlausan og óháðan lesanda Halldórs Laxness. Hannes hefur árum saman verið mikill aðdáandi stílsnilldar Halldórs, þó hann hafi verið lítill aðdáandi margs af því sem Halldór tók sér fyrir hendur. En hvernig er það, hverjir hafa kynnt sér ævi og verk Halldórs Laxness og eru hlutlausir gagnvart skáldinu og verkum þess? Eru gagnrýnislausir aðdáendur Halldórs „hlutlausir“ gagnvart honum? Er ekki eðlilegast að gera þá kröfu til ævisöguritara að hann fjalli af þekkingu og sanngirni um viðfangsefni sitt? Er hægt að krefjast „hlutleysis“ af honum?
Og ef að ekki er mark takandi á því sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar um Halldór Laxness, vegna þess að Hannes sé ekki hlutlaus og óháður þegar kemur að Halldóri og lífsverki hans – er þá mikið mark takandi á því sem Guðmundur Andri Thorsson skrifar um Hannes Hólmstein Gissurarson? Er ekki að minnsta kosti rétt að lesa skrif Guðmundar Andra með viðeigandi fyrirvörum í ljósi þeirra átaka sem hann stendur einatt í við mann og annan?