Mánudagur 6. júní 2005

157. tbl. 9. árg.

Jóna Hrönn Bolladóttir, sem starfar sem miðbæjarprestur í Reykjavík, var í viðtali á Talstöðinni á laugardaginn í þætti undir stjórn Helgu Völu Helgadóttur. Stjórnmál voru meðal umræðuefna og lét Jóna Hrönn þess þá getið að hún teldi að prestar gætu ekki verið í stjórnmálaflokkum. Þannig gengi til dæmis ekki að prestur væri framsóknarmaður enda þyrfti hann líka að þjóna öðrum, svo sem sjálfstæðismönnum. Þá sagðist Jóna Hrönn vera ákaflega pólitísk sjálf og tvítók þá fullyrðingu, en hún væri hins vegar ekki flokkspólitísk. Hún væri jafnaðarmaður, en ekki hægri maður, miðjumaður eða vinstri maður. Bara jafnaðarmaður. Hún hefði hins vegar aldrei viljað vera í neinum flokki, enda samrýmdist það ekki preststarfinu. Allt er þetta nú frekar sérstakt hjá Jónu Hrönn og ekki gott að skilja, en um þessar skoðanir hennar væri svo sem fátt að segja ef Jóna Hrönn væri bara prestur og væri afskiptalaus um stjórnmál. Jóna Hrönn er hins vegar – eins og fram kom í viðtalinu – varaborgarfulltrúi R-listans!

Og hvernig skyldi nú Jóna Hrönn geta samræmt öll þessi sjónarmið, verið prestur, frambjóðandi og varaborgarfulltrúi R-listans og talið að prestar eigi ekki að vera í tilteknum stjórnmálaflokkum af því að það geti stuðað suma sem til prestanna þurfi að leita? Jú, hún útskýrði þetta í þættinum, hún er nefnilega fulltrúi óháðra á R-listanum. Já, Jóna Hrönn, líkt og Dagur Bergþóruson Eggertsson, er fulltrúi óháðra á R-listanum og getur þess vegna verið bæði prestur og fundist að prestar eigi ekki að vera í flokkspólitík.

Þetta er eiginlega með hreinum ólíkindum. Að vísu er það ekkert nýtt að vinstri menn amist við því að prestar lýsi öðrum stjórnmálasjónarmiðum en vinstrimennsku. En sú kenning að prestur megi ekki vera félagsmaður í stjórnmálaflokki en hins vegar hafa miklar pólitískar skoðanir, hún er algerlega fráleit. Eitt væri nú að segja að prestar ættu ekki að láta stjórnmálaskoðanir sínar í ljós opinberlega; það er þá bara ákveðin skoðun á takmörkun sem fylgi prestsstarfinu. En það að vera félagsmaður í stjórnmálaflokki, það getur ekki verið verra en að hafa ákveðna pólitíska skoðun og berjast fyrir henni. Varla á Jóna Hrönn við, þegar hún segir að prestur megi ekki vera framsóknarmaður, að hún telji að hann myndi þá úr predikunarstólnum minna framsóknarmenn í söfnuðinum á ógreidda happdrættismiða og hvetja þá til að mæta á fundinn með Jóni og Dagnýju um kvöldið. Nei, ef eitthvað er athugavert við það að presturinn sé í stjórnmálaflokki, þá er það vegna þess að þá hefur presturinn pólitískar skoðanir, sem eru þá aðrar en einhver sóknarbörn hans hafa. Sú hugsun gengur hins vegar ekki upp, að það væri í lagi að presturinn hefði ákveðnar pólitískar skoðanir sem fyrir tilviljun færu nákvæmlega eftir sjónarmiðum forystu Framsóknarflokksins í hverju og einu máli – en svo ekki í lagi ef presturinn yrði einn daginn félagi í Framsóknarflokknum. Ef að það er ekki í lagi að prestur sé félagi í jafnaðarmannaflokki, þá er ekki heldur í lagi að prestur sé ákafur jafnaðarmaður og beiti sér sem slíkur. Það gengur ekki upp að prestur megi vera í framboði – en bara fyrir framboðslista sem hefur ekki félagatal. Og ef prestur telur að prestur megi ekki tilheyra stjórnmálaflokki, og presturinn lítur því næst í eigin barm og finnur þar mjög ákafar stjórnmálaskoðanir, hvað á presturinn þá að gera?

Það komu frekari skýringar fram á þessu pólitíska brölti prestsins. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði nefnilega leitað til Jónu Hrannar um framboð. Fyrst segist Jóna Hrönn hafa sagt nei, en svo hafi Ingibjörg suðað í henni og þá hafi hún sagt já. Þannig gekk þetta nú fyrir sig og þess vegna er allt í lagi að Jóna Hrönn sé varaborgarfulltrúi þó að henni finnist að prestar geti alls ekki verið í pólitík. Svo kom líka fram að Jóna Hrönn hefur mikla trú á Ingibjörgu Sólrúnu, þannig að enginn getur látið sér detta í hug að það sé nokkuð óeðlilegt við það að Jóna Hrönn sé varaborgarfulltrúi R-listans. Þetta er sem sagt allt mjög eðlilegt og Jóna Hrönn er mjög trúverðug eftir þessar yfirlýsingar sínar. Að minnsta kosti mátti ekki annað heyra af samtali þeirra Jónu Hrannar og Helgu Völu, sem gerði engar athugasemdir við málflutning Jónu Hrannar og þótti þetta greinilega allt hið eðlilegasta.

Og fyrir þá sjálfstæðismenn, frjálslynda eða aðra borgarbúa sem ekki kusu R-listann, en sem Jóna Hrönn kann að þurfa að þjóna sem prestur skiptir engu máli hvort hún er í framboði fyrir Samfylkinguna beint eða fyrir Samfylkinguna í gegnum R-listann. Ef að það truflar störf presta að þeir séu í flokkspólitík, þá truflar það störf þeirra að taka þátt í framboði R-listans. Þetta er augljóst öllum þeim sem ekki hafa tekið trú á Ingibjörgu Sólrúnu og fylgja henni í blindni.

Svo er þetta tal um „fulltrúa óháðra“ á R-listanum og athugasemdaleysi fréttamanna gagnvart því komið yfir flest mörk. Hvernig völdu „óháðir“ Dag B. Eggertsson sem fulltrúa sinn á R-listann? Eða Jónu Hrönn Bolladóttur? Það var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, áhugamaður um lýðræði, sem ein og sér valdi þetta fólk á listann. Er hún óháð? Hefur hún kannski umboð frá „óháðum“ til að velja „fulltrúa óháðra“ á framboðslista? Dagur B. Eggertsson og Jóna Hrönn Bolladóttir eru borgarfulltrúi og varaborgarfulltrúar R-listans, lista sem borinn var fram af Samfylkingu, Framsóknarflokki og Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Svo einfalt er það. Þau eru ekki fulltrúar neinna óháðra.