Í fyrradag birtist frétt í Morgunblaðinu um vondu hægrimennina sem eru að gera allt vitlaust í Ísrael. Þar er sagt frá því að ísraelskir lögregluþjónar hafi stöðvað mótmæli ísraelskra hægrimanna sem lokað hafi vegi til að sýna vanþóknun sína á áætlun ríkisstjórnarinnar, sem raunar er undir forsæti hægriflokks, um að leggja niður byggðir gyðinga á Gaza-svæðinu sem er hluti sjálfsstjórnarsvæðis Palestínumanna. Lesendum dettur væntanlega einna helst í hug að ísraelskir pólitískir skoðanabræður George W. Bush, Michael Howards, Anders Fogh Rasmussen og Davíðs Oddssonar hafi fjölmennt á mótmælin. Ekki þarf sérfræðing í málefnum Ísraels til að sjá hvílík endemis þvæla þetta er og mætti jafnvel ætla að sá sem fréttina skrifar sé vísvitandi að tengja orðið hægrimaður við skoðanir og hegðun sem flestir telja neikvæða. Og væri það ekki í fyrsta skipti sem slíkt sæist.
Ekki er hægt að flokka mótmælin eftir hefðbundnum hægri- eða vinstri-átakalínum sem við eigum að venjast. Rótin að þessum átökum er að langmestu leyti trúarleg og hernaðarleg eða snýst um þrönga hagsmuni þeirra fáu sem þarna búa. Þeir sem mótmæla því að leggja eigi niður byggðir á þessum svæðum koma úr öllu litrófi ísraelskra stjórnmála. Fjölmennastir, og mest áberandi allra, eru þeir sem líklega væri réttast að kalla bókstafstrúarmenn. Enda er trúin ein af fáum skoðunum sem þeir eiga sameiginlega, og sú trú að Guð hafi gefið Gyðingum þetta land, bæði Ísrael, Vesturbakkann og Gaza. Réttinn til að búa þar og byggja geti enginn tekið af þeim, ekki einu sinni yfirvöld í ríki Gyðinga, Ísrael. Sumir telja það meira að segja drottinsvik að ætla að láta hluta af svæðinu af hendi. Þess er skemmst að minnast að fyrir áratug var forsætisráðherra Ísraels, Yitzhak Rabin, myrtur af ísraelskum Gyðingi vegna þess að hann vildi láta land fyrir frið.
Eins og svo víða í Mið-Austurlöndum bætist trúarlega víddin við hægri-vinstri átakalínur stjórnmálanna. Hægriflokkurinn Likudbandalagið er sá flokkur sem áður fyrr var einna harðastur í afstöðunni gegn því að leggja niður búsetu Gyðinga á herteknu svæðunum, Gaza og Vesturbakkanum. Flokkurinn, sem fer með forsæti í ríkisstjórn, boðar hins vegar aðra stefnu nú og stefnir að því að fækka verulega gyðingabyggðum á þessum svæðum. Hægri- og vinstrimenn í Ísrael deila helst um það hversu hratt beri að gera þetta og hversu mikið beri að fækka byggðum.
Hörðustu trúflokkarnir eru hins vegar andvígir öllu slíku tali. Sama á við mikinn hluta þeirra, bæði vinstri- og hægrimanna, sem býr á þessum svæðum, enda eru fæstir í þessum heimi tilbúnir til að gefa heimili sín upp á bátinn. Jafnframt eru þeir til, bæði hægri- og vinstrimenn, sem telja glapræði að yfirgefa þessi svæði af hernaðarlegum ástæðum. Að setja merkimiðann hægrimenn á þessa mótmælendur er hins vegar hæpið í meira lagi. Hvort um er að ræða vísvitandi villandi neikvæða notkun á orðinu hægrimaður, til að tengja það við ósanngjarnt og ofstopafullt fólk út um allan heim, er óvíst. Hugsanlega er bara um ótrúlegt metnaðarleysi þess, sem skrifaði fréttina, að ræða. Hvort er verra skal ósagt látið.
Nú vill Vefþjóðviljinn láta Morgunblaðið njóta alls vafans og gefur sér, að einhver hægrihreyfing hafi skipulagt þessi tilteknu mótmæli sem Morgunblaðið fjallaði um í fyrrdag, þó að oftast séu það landnemarnir eða trúarhóparnir sem standa fyrir þeim. Þá ber blaðinu vitanlega að skýra málið betur, taka fram hvaða hægrihreyfing hafi komið að málinu og svo framvegis, í stað þess að vísa almennt til hægrimanna, eins og þetta sé almenn og viðtekin skoðun þeirra og baráttuaðferð.