Enska orðabókin Merriam-Webster útskýrir orðið „buzzword“ eða suðorð eitthvað á þessa leið: ábúðarfullt og gjarnan tæknilegt orð eða orðasamband, oftast lítillar merkingar og helst notað til að ganga í augun á leikum. Undir þetta falla semsagt þau orð sem heppilegt er að hafa á takteinum ef maður hefur hvorki neitt að segja né á þann kost að þegja og þarf að dylja þetta tvennt fyrir áheyrendum sínum.
Í þessum flokki er til dæmis orðið lýðræði með forskeytunum: íbúa-, umræðu-, samræðu og alþjóða-. Sama gildir um orðið stjórnmál þegar orðunum umræðu og samræðu hefur verið skeytt framan við. Orð sem enginn veit hvað merkja en ótrúlegasta fólki finnst samt gaman að nota. Ótrúlegasta, já því þeim sem eru þessi orð tömust hefur mörgum hverjum ekki verið hlýtt til lýðræðisins svona í gegnum árin. Og þá vaknar sú spurning hvort þessu fólki sé nokkuð hlýrra til lýðræðisins nú en á árum áður fyrst það segist vilja lýðræði en bara ekki svona lýðræði eins og nú er notast við. En hvers vegna vaknar sú spurning? Já, hvers vegna?
a) | Við viljum frjálst útvarp og sjónvarp en bara ekki núna og ekki svona heldur einhvernveginn öðruvísi en það er ekki spurning að við viljum frjálst útvarp og sjónvarp. |
b) | Við viljum einkavæða síldarverksmiðjurnar/bankana/símann en bara ekki núna og bara svolítið öðruvísi en það er ekki spurning að við viljum einkavæða þetta. |
c) | Við viljum lækka skatta en það er bara ekki tímabært núna og svo má ekki lækka þá svona heldur verður að lækka þá hinsegin en það er ekki spurning að við viljum lækka skatta. |
… | … |
ö) | Við viljum lýðræði en bara ekki svona lýðræði heldur öðruvísi og miklu meira og betra en það bara einhvernveginn tekur því ekki að koma því á í Reykjavík og R-listanum en það er ekki spurning að við ætlum koma því á í þegar við komumst í ríkisstjórn. |
Annað sem vekur þessa spurningu er að þetta sama fólk með sinn nýfengna áhuga á lýðræði vill um leið auka það sem það kallar fagmennsku. Allt á að verða svo lýðræðislegt og um leið svo faglegt. En gengur þetta alveg upp? Er hægt að segja að allt eigi að vera svo lýðræðislegt og faglegt bara rétt eins og það er hægt að segja að allt eigi að vera svo hreint og fínt? Það hljómar að vísu vel en hljómurinn er einmitt þetta suð sem á að fela merkingarleysið.
Við tvær síðustu skipanir dómara í hæstarétt hafa þessir nýju lýðræðissinnar gagnrýnt dómsmálaráðherra fyrir að standa ekki faglega að ráðningu dómaranna. Kjarninn í gagnrýninni var sá að ráðherra hefði ekki orðið við óskum hæstaréttar eða einhverra sérfræðinga í þessari eða hinni grein lögfræðinnar um hver umsækjendanna skyldi valinn. Með öðrum orðum þá gagnrýndu áhugamennirnir um lýðræði ráðherrann fyrir að taka þessa ákvörðun og vildu heldur að stofnanir og einstaklingar sem eru næstum alveg eða alveg án lýðræðislegs umboðs tækju ákvörðunina. Og nú er mikilvægt að halda því enn og aftur til haga að þeir sem urðu fyrir valinu voru af hæstarétti taldir uppfylla skilyrði um fagmennsku.
En hvað á þetta fólk þá við með tali sínu um aukið lýðræði? Jú, það vill auka lýðræðið en ekki í þeim skilningi sem oftast er lagður í orðið. Hér eru jú kosningar til sveitarstjórna og Alþingis á fjögurra ára fresti og enginn ber brigður á framkvæmd þeirra. Með auknu lýðræði á þetta fólk við að það vill víkka verkahring stjórnmálanna. Það vill hverfa aftur til þess tíma þegar meira eða minna allt þjóðfélagið var undir í kosningum. Þetta fólk hefur nefnilega staðið í ótrúlegu basli undanfarin hálfan annan áratug og fært miklar fórnir til að eygja möguleikann á því að komast í ríkisstjórn en sér nú sér til mikilla vonbrigða að ríkisstjórnarseta núna er bara hreint ekki eins safarík og hún var fyrir fimmtán árum. Stór hluti af leikföngunum er bara farinn af þessum róló og fyrst leikföngin eru farin þá á bara að stækka völlinn þangað til leikföngin eru aftur innan hans undir því yfirskini að auka lýðræðið.
Og þetta með fagmennskuna, kemur það ekki merkilega vel heim og saman við hugmyndir Platós um ríkið, þar sem menntaða einveldið er best, lýðræðið næst verst en hvergi rúm fyrir sjálfræði af neinu tagi? Lýðræðið er ágætt svo langt sem það nær en gallinn við það er sá að um leið og búið er að telja upp úr kjörkössunum verður það að alræði meirihlutans. Eina leiðin til þess að ráða bót á þessum galla er að lýðræðið taki til eins lítils hluta þjóðfélagsins og kostur er og þar sem lýðræðinu sleppir taki sjálfræði einstaklinganna við.