John Blundell, framkvæmdastjóri Institute of Economic Affairs, leggur út af því sem hann nefndir hið algilda lögmál sitt um skrifræði og regluverk í grein sem birt er á vef stofnunarinnar. Lögmálið er á þá leið að allar pólitískar uppfinningar hafi öfugar afleiðingar við það sem þeim er ætlað. Sem dæmi um þetta nefnir hann erfðafjárskatt. Honum hafi vafalítið einkum verið að ætlað að ná til hinna ríku og láta þá sem hafa „ekki unnið“ fyrir auði sínum finna fyrir því.
Það sé hins vegar ljóst að hinir ríku ráði lögfræðinga og endurskoðendur til að komast hjá skattinum en hann lendi hins vegar á öðrum efnaminna af fullum þunga. Hann geri því hina ríku ríkari, að minnsta kosti í samanburði við hina. Til að komast hjá skattinum eru ýmsar leiðir og þótt skattyfirvöld reyni að loka þeim opnast bara nýjar smugur. Samkvæmt opinberum tölum í Bretlandi er meðalbúið sem greiða þarf erfðafjárskatta af metið á um 400 þúsund Sterlingspund eða um 48 milljónir þorskkróna. Blundell segir að þetta sé ekki mikið meira en venjulegt heimili. Fæstir hafi auk þess keypt sér sérfræðiaðstoð til að komast undan skattinum. Fólk geri sér auðvitað almennt ekki grein fyrir því að skatturinn líti á það sem auðkýfinga þar sem það situr á heimilum sínum eftir að börnin eru farin að heiman og maki fallinn frá. Því sé erfðafjárskatturinn rétt nefndur millistéttarbani.
Þótt skattinum sé öðrum þræði ætlað að kroppa í mikinn uppsafnaðan auð þá eru undanþágurnar sniðnar fyrir auðmenn. Jarðir eru til að mynda undanþegnar hafi þær verið á sömu hendi undangengin tvö ár. Oft njóta jarðeigendur, til dæmis bændur, einnig ríkulegra ríkisstyrkja. Hið sama gildir um eignir bundnar í atvinnurekstri, þær eru auðvitað undanþegnar því ekki er hægt að gera kröfu til þess að fjölskyldufyrirtækjum sé sundrað vegna þess arna. Hefðarmaður á stórri landareign sem nýtur góðrar sérfræðiráðgjafar sleppur vel frá þessu kerfi en ekkjan á úthverfaheimili sínu fær að kenna á því.
Blundell vonar að áhrif skattasamkeppni frá Austur-Evrópu muni leiða til þess að önnur Evrópuríki einfaldi skattkerfi sín, helst með flötum skatti, og erfðafjárskatturinn verði að engu í þeirri keppni.
Hér á landi var stigið skref í þessa átt í fyrra þegar almennt hlutfall erfðafjárskattsins var lækkað um helming, úr 10% í 5%, og hámarkið úr 45% í 10%.