Evrópusambandið samþykkti 38.936 gerðir á árunum 1994 til 2004. Já þær eru tæplega þrjátíuogníuþúsund. Af þeim voru 2.527 teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta kom fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar á Alþingi í gær. Á hverjum einasta virkum degi á þessu tímabili framdi Evrópubáknið því 14 misgerðir gegn borgurum sínum. Þetta er sláandi magn, ekki síst þegar haft er í huga hve ólýðræðislegt þetta bákn er. Enginn ber ábyrgð á þessu offorsi gagnvart kjósendum.
Íslendingar og aðrir aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið geta hrósað happi að hafa aðeins fengið 6,5% af þessum ósköpum yfir sig, ekki síst þar sem hingað til hefur því verið haldið fram að yfir 80% af því sem kemur frá Brussel verði að lögum á Íslandi. En þrátt fyrir að fá aðeins brot af þessari skæðadrífu yfir sig hafa Íslendingar, með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, tekið upp sem nemur einni Brusselgerð á hverjum virkum degi. Það er hroll vekjandi.
Í grein eftir einn af ritstjórum The Wall Street Journal í blaðinu í gær veltir hann því fyrir sér hvers vegna mikið atvinnuleysi og lítill hagvöxtur séu orðin aðalsmerki Evrópusambandsins.
Þegar það er haft í huga að nú má mæla slaka frammistöðu Evrópu í efnahagsmálum í áratugum er tímabært að spyrja þeirrar spurningar hverjum hafi komið það til hugar að háir félagslegir styrkir, háir skattar og strangar reglur um ráðningar og uppsagnir myndu leiða til að hagvaxtar. Hvernig datt mönnum í hug að til yrði „evrópskt módel“ þar sem vitlausar stjórnvaldsákvarðanir hefðu ekki lamandi áhrif á atvinnusköpun og hagvöxt? |
Þegar menn taka svo margar ákvarðanir sem raun ber vitni í Brussel er ekki að undra að ýmsar þeirra séu ekki aðeins óþarfar heldur einnig skaðlegar.
Nokkur félög eigenda Dieselbíla efndu til mótmæla við Alþingishúsið í gær og kröfðust þess að skattar á Dieselolíu yrðu miklu lægri en á bensín. Þá þegar hefði verið ákveðið að skattar á Diesel yrðu lægri en á bensín, hvort sem miðað er við lítra eða orkuinnihald. En þessum sérhagsmunahópum þótti ekki nóg að gert. Lögðu hóparnir fram kröfu um að skattur á Diesel yrði 25 til 30 krónur á móti 51,7 krónum á bensínlítrann. Félögin sem stóðu að þessu voru Ferðaklúbburinn 4×4, Félag hópferðaleyfishafa, Landsamband sendibílstjóra, Frami stéttarfélag leigubílstjóra og Bifreiðastjórafélagið Átak. Í öllum þessum félögum eru auðvitað líka menn á bensínbílum en hagsmunir þeirra virðast ekki skipta máli þegar þessi félög taka sig saman. Hvað gerist næst? Koma unnendur eplasafa og krefjast lægri skatta en á appelsínusafa?
Í þessu samhengi er ekki vitlaust að rifja það upp að fyrir nokkrum árum var skattlagningu bensín breytt á þann veg að í stað hlutfallsskatta komu fastir krónutöluskattar. Ef þessi breyting hefði ekki verið gerð væri bensínverðið líklega komið í 120 krónur á lítrann núna. Nokkru áður en þessi breyting var gerð mátti hins vegar lesa það í stefnuskrá Samfylkingarinnar að hún vildi leggja á „almennan koldíoxíðskatt“. Á mannamáli þýðir „almennur koldíoxíðskattur“ að allir sem brenna jarðefnaeldsneyti, olíu, kolum og gasi verða skattlagðir aukalega. Þessi almenni koldíoxíðskattur hefði auðvitað lagst á bæði bensín og Diesel enda ekki verið „almennur“ ef annarri af helstu uppsprettum koldíoxíðs hefði verið sleppt.
Samfylkingin hefur þó ekki komist í ríkisstjórn enn til að efna þetta loforð sitt um aukna skatta á eldsneyti.