Eins og Vefþjóðviljinn hefur stundum sagt þá skipta þjóðaratkvæðagreiðslur innan Evrópusambandsins litlu máli því aldrei er bakkað með nokkurn hlut, bara kosið aftur eftir að hlutunum er raðað upp á nýtt þannig að í raun er sama gamla draslið notað áfram. Í nýjasta fréttabréfi Evrópusamtakanna er vitnað í ræðu sem Jón Baldvin Hannibalsson hélt á aðalfundi samtakanna eftir að hann var kjörinn „Evrópumaður ársins“ af samtökunum.
Ef eitthvað ríki fellir stjórnarskrána, hvað gerist þá? Nú, þá taka gömlu sáttmálarnir gildi, en það gerist ekki mikið meira. Stjórnarskráin minnir mig á að konur eru alltaf svo mikið fyrir tiltekt og að hafa allt í röð og reglu á sínu heimili. Þetta er svona til að safna saman því sem á að standa á einu blaði, en það skiptir engu máli um framtíð Evrópusambandsins í raun og veru hvort öll löndin samþykkja eða ekki. Þetta er leiðinlegt plagg og allt of langt, en það skiptir engum sköpum. |
Það er sagt að stjórnmál víki sífellt meira fyrir viðskiptamálum. Það er nokkuð til í því. Til að vekja athygli almennings á sér hefur formannsframboð Össurar Skarphéðinssonar í Samfylkingunni því sent frá sér milliuppgjör. Uppgjörið er gott, hagnaður nokkur og arðsemi eigin fjárframlags Össurar vel yfir 50% að teknu tilliti til dóttur- og hlutdeildarfélaga á borð við Músavinafélagið og Álfaskólann. Þegar tekið er tillit til þessarar góðu afkomu og þeirrar klassísku hagfræðikenningar vinstri manna að eins gróði sé annars tap hlýtur að vera von á afkomuviðvörun frá framboði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.
Vefþjóðviljinn rifjaði það síðast upp fyrir viku hvernig Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, frambjóðandi Kvennalistans í þingkosningum 1991, varpaði helsta stefnumáli listans, að vera andvígur álverum, fyrir róða á sjálfa kosninganóttina. Ástæðan var að hún eygði möguleika á sæti í ríkisstjórn léti hún þetta meginmál framboðsins ekki flækjast fyrir.
Þrátt fyrir þessi sinnaskipti í beinni sjónvarpsútsendingu á kosninganótt þegar ráðherrastólarnir voru farnir að freista hefur Ingibjörg ekki alveg sagt skilið við gömlu stefnu Kvennalistans því á fundi með stuðningsmönnum sínum í fyrrakvöld vék hún að álversmálum með eftirfarandi orðum:
Hún [ríkisstjórnin] er föst í atvinnustefnu gærdagsins og sér enga aðra kosti en stóriðju sem byggir á stórvirkjunum í stað þess að skjóta stoðum undir fjölbreytta atvinnustarfsemi um land allt. |
Þegar hin gamla stefna Kvennalistans og orð Ingibjargar í fyrrakvöld eru höfð í huga kemur forsíða blaðs Samfylkingarinnar fyrir síðustu þingkosningar einkar vel út.
Frambjóðendur Samfylkingarinnar segja ál fyrir ljósmyndarann fyrir austan. |