Fimmtudagur 5. maí 2005

125. tbl. 9. árg.

Það er alltaf jafn sérkennilegt að verða vitni að því þegar tilbeiðsla eins ákveðins stjórnmálasafnaðar brýst út og kemst í augsýn allra heiðingjanna, þessara sem ekki hafa tekið sömu trú. Langt út fyrir það sem eðlileg athugun myndi gefa efni til, er af og til farið með uppstemmdar þulur um ætlaða yfirburði eins tiltekins stjórnmálamanns umfram aðra menn. Jafnvel sífelldur viðsnúningur skoðana stjórnmálamannsins, allt eftir því hvernig skoðanakannanir blása, er hafður til marks um að stjórnmálamaður þessi sé „engu trú nema sannfæringu sinni“. Stundum virðist jafnvel vafamál hvort nánustu ráðgjafar telja þennan stjórnmálamann af þessum heimi eða öðrum.

Ekki það? Of mikið sagt? Ja mætti Vefþjóðviljinn þá til dæmis vekja athygli á grein Elínar G. Ólafsdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa Kvennalistans og eins nánasta stuðningsmanns Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem birtist í Morgunblaðinu í vikunni. Greinin snýst um það að einhverjir „vinir“ Ingibjargar Sólrúnar hafi ekki stutt hana nægilega eftir síðustu þingkosningar. Elín þekkir greinilega að minnsta kosti eitt annað dæmi um sambærileg svik því greinin nefnist „Áður en haninn galar tvisvar…“ og er fyrirsögnin höfð innan tilvitnunarmerkja svo ekki fari milli mála að vísað er til þekkts atburðar. Elín lætur í greininni, eins og fleiri stuðningsmenn Ingibjargar hafa gert, eins og niðurstöður síðustu alþingiskosninga hafi í raun verið sigur Samfylkingarinnar, þrátt fyrir að niðurstaðan hafi verið flokknum mun óhagstæðari en kannanir höfðu bent til og allar vonirnar um að Samfylkingin yrði stærsti flokkur landsins hafi hrunið, þrátt fyrir ótvíræðan fjölmiðlastuðning og að því virtist takmarkalítið fé til baráttunnar. En gott og vel. Í greininni segir Elín G. Ólafsdóttir að þessa sigurnótt hafi hins vegar gerst „svipað og í Getsemane forðum“, þar sem að „vinirnir“ hafi boðist til að semja við formann annars stjórnmálaflokks um stjórnarsamvinnu. Þetta er svipaður, bara háfleygari, söngur og Einar Kárason kvað nokkrum dögum fyrr, og fjarstæðukenndur vitanlega. Samfylkingunni bauðst ekki að mynda stjórn með nokkrum flokki, eins og best sást á því að Halldór Ásgrímsson neitaði að mynda stjórn með henni, jafnvel undir eigin forystu. Það að láta sér koma til hugar að Halldór hefði hins vegar verið til í slíkt samstarf undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur – það er hugmynd sem ekki getur vaknað hjá öðrum en þeim sem halda að þar sem hún gengur, þar sé helg jörð.

Og það virðist Elín G. Ólafsdóttir gera, og segir það nokkuð um hugarfarið sem umlykur varaþingmanninn. Lokaorð Elínar eru þessi: „Ég styð Sólrúnu þessa löngu nótt á enda. Ég á hins vegar enga samleið með þeim sem afneita „vinum“ sínum ekki bara einu sinni heldur að minnsta kosti þrisvar áður en haninn galar tvisvar“.

Svo að lokum má velta fyrir sér hvernig fjölmiðlar létu ef svona væri skrifað í öðrum flokkum.