Miðvikudagur 4. maí 2005

124. tbl. 9. árg.

N

Hvað næst? Prófessorsstaða í vel heppnuðum viðskiptafræðum Karls Marx?

ú hefur skóli sem kallar sig Viðskiptaháskólann á Bifröst gert samning við Framsóknarflokkinn um að stofna stöðu prófessors í „samvinnufræðum“ í nafni Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Þeir eru líklega nokkrir sem þurftu að klípa sig í handlegginn í gærmorgun þegar þeir lásu frétt þessa efnis í Morgunblaðinu, svo mikil ólíkindi eru hér á ferðinni. Þessi skóli hét lengst af Samvinnuskólinn og eins og sjá má á ferilsskrám margra framsóknarmanna sem hafa látið að sér kveða í stjórnmálum hefur hann verið nýttur sem uppeldisstöð fyrir Framsóknarflokkinn. Í seinni tíð hefur skólinn hins vegar markvisst reynt að breyta um ímynd og gekk meira að segja svo langt að breyta um nafn, sem var mörgum framsóknarmanninum þvert um geð. Nú virðist skólinn hins vegar sjá sóknarfæri í þessari vafasömu fortíð sinni og tekur upp samstarf við Framsóknarflokkinn um kennslu í skólanum.

Væntanlega til að leggja áherslu á þessa nýjustu stefnubreytingu, afturhvarfið, var um síðustu helgi haldið málþing í Samvinnuskólanum – afsakið, Viðskiptaháskólanum á Bifröst – um Jónas frá Hriflu í samvinnu við Framsóknarflokkinn. Og í fréttatilkynningu um málþingið segir að áhrifa Jónasar gæti í skólanum „og fylgir Bifröst enn að verulegu leiti [sic] þeirri stefnu sem Jónas markaði honum sem stofnandi og fyrsti skólastjóri allt frá árinu 1918.“ Þetta er vissulega afar athyglisverð staðreynd fyrir ungt fólk sem er að velta því fyrir sér hvaða skóli bjóði því besta námið. Þeir sem telja „samvinnufræði“ merka vísindagrein sem muni nýtast sér vel í atvinnulífi framtíðarinnar eru vafalítið vel settir á Bifröst eftir þessar nýjustu vendingar, en aðrir áhugamenn um háskólanám hljóta að hugsa sinn gang.

Jónas frá Hriflu er þekktur fyrir að vera einhver allra óbilgjarnasti og ósanngjarnasti stjórnmálamaður Íslands fyrr og síðar og þegar af þeirri ástæðu er vægast sagt furðulegt að háskóli skuli fallast á fyrir fjárstuðning frá stjórnmálaflokki að stofna stöðu sem kennd er við hann. Jónas var þekktur fyrir að misnota vald sitt gegn pólitískum andstæðingum og persónuníðið og munnsöfnuðurinn sem hann bar með sér inn í íslensk stjórnmál á sér engan líka. Ef litið er til atvinnu- og efnahagsmála þá er skemmst frá því að segja að Framsóknarflokkurinn stóð, á þeim árum sem áhrifa Hriflu-Jónasar gætti hvað mest, fyrir sérstakri aðför að einkaframtaki í landinu. Þetta var gert í nafni „samvinnuhugsjónarinnar“ og kaupfélögunum hyglað á kostnað einstaklingsrekstrar og hlutafélaga, meðal annars með langvarandi haftabúskap. Þetta kallaði áratugalangan doða yfir íslenskt atvinnulíf og það er ekki fyrr en á síðustu árum sem það náði sér eftir hremmingarnar.

Það er því ekki að ástæðulausu sem mönnum bregður við að skóli sem nú kallar sig viðskiptaháskóla skuli stofna sérstaka prófessorsstöðu um þessi ósköp. Í framhaldinu hljóta menn einnig að spyrja sig hvort að allt sé falt í Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Getur hver sem er keypt prófessorsstöðu um hvað sem er við þennan skóla? Má næst búast við að ef kaupandi gefur sig fram verði honum seld prófessorsstaða kennd við Karl Marx? Hvað með einhverja af harðstjórum heimsins, má búast við að þeir verði gerði ódauðlegir við Viðskiptaháskólann á Bifröst ef nægt fé fæst fyrir?

En svo, ef menn hugsa málið nánar, þurfa þeir svo sem ekkert að undrast að Viðskiptaháskólinn á Bifröst skuli notaður í undarlegum tilgangi. Eða var hann ekki notaður í leikfléttu í stundarstríði innan eins stjórnarandstöðuflokksins, sama flokks og helstu forsvarsmenn skólans tilheyra?