N
Á nýrri heimasíðu forseta Íslands er flett ofan af rangfærslum í greinargerð kosningamiðstöðvar Ólafs Ragnars Grímssonar frá árinu 1996. |
ú hefur Ólafur Ragnar Grímsson, sem starfar sem forseti Íslands, opnað heimasíðu um sig og forsetaembættið. Síðan er ánægjuleg viðbót við vefflóruna fyrir þá sem lítið hafa fyrir stafni og Vefþjóðviljinn stærir sig vitaskuld af að vera í þeim hópi. Þá er síðan gleðigjafi fyrir þá sem ekki hafa þurft að bíða nema í níu ár eftir að Ólafur Ragnar léti verða af því að opna heimasíðu eins og til stóð frá upphafi. Loks er heimasíðan athyglisverð fyrir þá sem í forsetakosningunum fyrir níu árum bentu á að Ólafur Ragnar hefði ýmislegt misjafnt á pólitískri samviskunni sem hann og stuðningsmenn hans vildu ekki kannast við í kosningunum. Það vekur til að mynda athygli að á nýju heimasíðunni segir um Ólaf Ragnar: „Hann starfaði sem ritstjóri Þjóðviljans 1983-1985“. Þetta vekur ekki athygli vegna þess að mönnum hafi verið ókunnugt um þessa staðreynd, heldur vegna þess að nú hefur Ólafur Ragnar aftur gengist við þessu ritstjórastarfi sínu.
Eins og áður sagði var í kosningabaráttunni vegna forsetakjörsins árið 1996 mjög gagnrýnt hvernig Ólafur Ragnar reyndi að fela pólitíska fortíð sína og búa til nýja ímynd með auglýsingamennsku sem var áður óþekkt hér á landi. Eitt af því sem hentaði honum ekki var að minnt væri á að hann hefði starfað sem ritstjóri Þjóðviljans, málgagns Alþýðubandalagsins, en hann birti ýtarlega úttekt á lífshlaupi sínu þar sem þessu atriði var sleppt. Og ekki nóg með það, heldur neitaði hann því sérstaklega að hafa starfað sem ritstjóri Þjóðviljans, svo mikið var honum í mun að þvo af sér þann smánarblett. Eftir kosningar sendi kosningamiðstöð hans meira að segja frá sér greinargerð þar sem tekin voru af öll tvímæli um þetta atriði, en í greinargerðinni sagði um það hvort Ólafur Ragnar „hafi gegnt ritstjórastarfi á Þjóðviljanum 1983-1985“:
Svarið er nei. Hann var aldrei skráður ritstjóri og gegndi ekki ritstjórnarlegri ábyrgð, en hins vegar vann hann á og með ritstjórn blaðsins á þessu tímabili og skrifaði meðal annars forystugreinar í blaðið ásamt öðrum. Ef hann hefði tekið upp þetta ritstjórastarf í skrá um starfsferil sinn hefði Ólafur Ragnar farið með rangt mál. |
Það munar ekki um staðhæfinguna. Ef hann hefði tekið upp þetta ritstjórastarf í skrá um starfsferil sinn hefði hann farið með rangt mál, hvorki meira né minna. Honum var því nauðugur einn kostur, hann varð í kosningabaráttunni að fela það að hafa starfað sem ritstjóri Þjóðviljans. Eða hvað? Nei, vitaskuld ekki. Ólafur Ragnar Grímsson var ritstjóri Þjóðviljans á árunum 1983-1985 eins og gagnrýnendur hans héldu fram og hann hefur nú sjálfur staðfest. Og hann hefur um leið staðfest að hafa farið með rangt mál þegar hann árið 1996 neitaði því að hafa gegnt þessu starfi.