Samtökin Amnesty International byggja afkomu sína á frjálsum framlögum, og til þess að tryggja sjálfstæði sitt og óhlutdrægni þiggja þau aldrei ríkisstyrki. … Til að tryggja sjálfstæði sitt leitar Amnesty International hvorki eftir né þiggur fé frá ríkisstjórnum eða stjórnmálaflokkum í starf sitt við að skrásetja og berjast gegn mannréttindabrotum. |
– Af heimasíðu Íslandsdeildar Amnesty International. |
Alveg eins og í fyrra. Enn tekst fréttamönnum að tala um það dag eftir dag að félagið Mannréttindaskrifstofa Íslands, sem vel að merkja Íslandsdeild Amnesty International á aðild að, fái bara ekki nema rúmar tvær milljónir króna í ríkisstyrki. Og nákvæmlega eins og í fyrra tekst engum fréttamanni að nefna það, þó ekki væri nema einu sinni, að Amnesty hrósar sér af, og telur hreint lykilatriði, að þiggja ekki ríkisstyrki. Hvers vegna er það aldrei nefnt? Í öllum viðtölunum við mannréttindapostulana, hvers vegna er aldrei minnst á það að það sé kannski óeðlilegt að þeir séu allir reknir fyrir ríkisfé? Hvers vegna eru þeir aldrei spurðir um ósamræmið í málflutningnum? Hvers vegna er Íslandsdeild Amnesty, sem á aðild að Mannréttindaskrifstofunni, aldrei spurð um það hvort hún telji eðlilegt að Mannréttindaskrifstofan sé að heimta ríkisfé til starfsemi sinnar? Og ef Íslandsdeildin telur það, hvers vegna það geti bæði verið lykilatriði fyrir sjálfstæði að þiggja ekki ríkisstyrki og líka verið lykilatriði að fá sem allra mesta styrki? Ríkið styrkir Mannréttindaskrifstofuna um á þriðju milljón í ár, eftir allan „niðurskurðinn“. Engum fréttamanni, og þeir eru nú allir svo miklir fagmenn „fram í fingurgóma“, dettur í hug að spyrja um þetta. Og engum dettur heldur í hug að spyrja hvers vegna utanríkisráðuneytið eigi að vera að styrkja frjáls innlend félagasamtök um milljónir króna. Til starfa innan lands. Utanríkisráðuneytið.
En öllum dettur þeim í hug að gefa í skyn að allt séu þetta einhverjar hefndarráðstafanir vegna einhverra umsagna um lagafrumvörp! Ætli þeir haldi þetta í alvöru?