Miðvikudagur 20. apríl 2005

110. tbl. 9. árg.

Flatur skattur er helsta umfjöllunarefni nýjasta tölublaðs The Economist að þessu sinni og rekur tímaritið hvernig hann hefur unnið á síðustu árin. Skatturinn var fyrst tekinn upp í Eistlandi árið 1994 og þar er flatur skattur á einstaklinga 26% af tekjum. Á hæla Eistlands fylgdi Litháen með 33% flatan skatt og ári síðar bættist Lettland í hópinn með 25% skatt. Það var svo árið 2001 sem Rússland tók upp sama kerfi en með mun lægra skatthlutfalli, eða 13%. Næstu ár bættust við Serbía, með 14%, Úkraína, 13%, Slóvakía, 19%, Georgía, 12% og Rúmenía, 16%. Þessu til viðbótar er áhugi fyrir hendi í nokkrum öðrum löndum, svo sem Póllandi og Bandaríkjunum, og tillögur hafa komið fram um 30% flatan skatt á Spáni og í Þýskalandi. Þessi umræða hefur einnig náð til Íslands. Dæmi um það eru hugmyndir sem Verslunarráð Íslands kynnti í vetur um að skattkerfið verði  einfaldað verulega þannig að flestir skattar verði 15%.

Margs konar röksemdir eru fyrir því að taka upp flatan skatt. Nefna má að innheimtan verður mun einfaldari og ódýrari og undanskot minnka, sér í lagi ef skatturinn er nægilega lágur til að skattgreiðendum þykir hann ekki eins ranglátur og ella. Þetta getur sparað háar fjárhæðir bæði í beinum útgjöldum  hins opinbera vegna skattheimtumanna og einnig vegna kostnaðar sem einstaklingar verða fyrir vegna flókins skattkerfis. Með einföldu flötu skattkerfi þar sem ekki eru óteljandi undanþágur verður minni sóun en í þeim skattkerfum sem algengust eru og hagkerfið verður skilvirkara og betra. Þetta skiptir máli, en þó skiptir ekki minna máli að flatur skattur á allar tekjur er ekki eins ranglátur og stighækkandi skattur, þar sem flatur skattur felur í sér að allir greiða sama hlutfall launa sinna í skatt. Þeir sem meiri tekjur hafa greiða þó vitaskuld meiri skatta en þeir sem minni tekjur hafa, en hlutfallið er það sama.

The Economist segir að því hafi verið haldið fram að flatur skattur sé óraunhæfur, en reynslan sýni að svo sé ekki. Þar við bætist að auðveldara kunni að vera að gera róttækar breytingar á skattkerfinu en að stunda smáskammtalækningar, og hugmyndin um flatan skatt kunni að vera nægilega róttæk til að geta náð fram að ganga. Hér ber að vísu að hafa í huga að skattkerfi eru víða mun flóknari en á Íslandi og auk þess hefur náðst töluverður árangur í lækkun skatthlutfalla hér á landi að undanförnu. Engu að síður er full ástæða til að ætla að með flötum lágum skatti megi bæta skattkerfið hér á landi umtalsvert, létta skattbyrði fólks og treysta hagkerfið.