Sigurjón Þórðarson þingmaður Frjálslynda flokksins svokallaða bryddaði nýlega upp á umræðu um byggðamál utan dagskrár á Alþingi. Ef marka má umræðuna – sem ekki er alltaf ástæða til í tilviki umrædds framsögumanns – hefur Sigurjón áhyggjur af því að of lítið sé af opinberum störfum á landsbyggðinni því að of hátt hlutfall þeirra sé í Reykjavík. Gagnrýndi hann mjög byggðastefnu ríkisstjórnarinnar. Byggðastefnan svokallaða er vissulega gagnrýniverð, en ekki á þeirri forsendu sem Sigurjón lagði upp með. Byggðastefnan er þvert á móti gagnrýniverð vegna þess að með vísan til hennar eru stundum teknar ákvarðanir um að eyða skattfé ekki á hagkvæmasta hátt, til dæmis með því að bora óhagkvæm göng, með því að flytja störf eða stofnanir út á land eða með því að niðurgreiða landbúnaðarframleiðslu.
Samkvæmt forsendum Sigurjóns er byggðastefna ríkisstjórnarinnar slæm vegna þess að fleiri opinber störf verði til á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Það hefði þess vegna átt að vekja Sigurjón til umhugsunar um málflutning sinn – en gerði það þó af einhverjum ástæðum ekki – þegar formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, upplýsti þingið um það að á árunum 1998-2003 hefði opinberum störfum fjölgað um 2% á höfuðborgarsvæðinu en um 12% á landsbyggðinni. Miðað við forsendur Sigurjóns ættu þetta að vera góð tíðindi, þó að þau séu það að sjálfsögðu ekki. Að meðaltali var fjölgunin 7% á þessu tímabili og sú staðreynd ætti að verða til þess að stjórnmálamenn staldra við. Einhverjir kunna að fagna því að skipting starfanna hefur verið með þeim hætti sem formaður Framsóknarflokksins lýsti og Sigurjón Þórðarson ætti að vera í þeim hópi þó að hann kjósi frekar, eins og stundum áður, að taka afstöðu gegn eigin málflutningi.
Eins og við er að búast í umræðum af þessu tagi á Alþingi var fátt sagt sem glatt getur skattgreiðendur og þá sem vilja fremur að ríkisbáknið sé smátt en stórt. Árni M. Mathiesen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vék þó að því að vöxtur hins opinbera sé áhyggjuefni og óhætt er að taka undir það. Fjölgun opinberra starfsmanna um 7% á skömmum tíma er alveg óviðunandi og hlýtur að verða til þess að ákvörðun verði tekin um að snúa af þessari braut. Tæplega 30% allra vinnandi manna er hjá hinu opinbera og fækkun opinberra starfa hlýtur að vera eitt brýnasta verkefni stjórnmálanna.