J
Jóhannes Páll II átti ríkan þátt í því að Lech Walesa og fleiri andófsmenn náðu árangri í baráttunni gegn stjórnvöldum í kommúnistaríkjunum. |
óhannes Páll II er borinn til grafar í Péturskirkju í Róm í dag. Athöfnin fer fram að viðstöddu gríðarlegu fjölmenni og milljónir manna hafa lagt á sig langt ferðalag til að votta hinum látna páfa virðingu sína. Jóhannes Páll II, eða Karol Jozef Wojtyla eins og hann var skírður fyrir tæpum 85 árum, hefur verið páfi í rúman aldarfjórðung og margir muna þess vegna ekki annan mann í þessu embætti, sem er líklega að hluta til skýringin á þeirri miklu athygli sem andlát og útför páfa hefur fengið. En fleira kemur til. Þó að ekki sé líklegt til árangurs að meta samtímamenn í sögulegu samhengi má líklega halda því fram að Jóhannes Páll II sé með merkari páfum, að minnsta kosti á síðustu öldum. Ástæður þessa eru ekki endilega á trúarlega sviðinu, þó að hann hafi þar verið kaþólskum mönnum – og jafnvel öðrum – mikil fyrirmynd bæði í orði og verki. Ástæðnanna er fremur að leita í þeim verkum páfa sem teljast mega veraldleg.
Þau verk Jóhannesar Páls II sem hér þykir sérstaklega vert að geta um snúa að baráttu hans gegn kommúnistastjórnum fyrrum austantjaldsríkja, sér í lagi heimalands hans, Póllands. Jóhannes Páll II var ekki ókunnugur alræðisstjórnum, því að hann hafði kynnst nasistum Þýskalands þegar þeir hertóku Pólland og kommúnismanum kynntist hann að lokinni heimsstyrjöldinni síðari. Árið 1979, um ári eftir að hann var valinn páfi, ferðaðist hann til heimalands síns og hafði með orðum sínum þar afgerandi áhrif til þess að Samstaða var stofnuð undir forystu Lech Walesa og baráttan gegn kommúnismanum hófst. Hægt er að deila um það hve mikil áhrif Jóhannesar Páls II á hrun kommúnismans voru og hvort að hann eða aðrir, til að mynda Ronald Reagan eða Margaret Thatcher, hafi haft meiri áhrif þar á. Hitt er varla hægt að deila um og það er að málflutningur páfa hafði mikil áhrif og átti ríkan þátt í að tíu árum eftir að hann hélt í eftirminnilega heimsókn til Póllands, féll Múrinn í Berlín og valdakerfi Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins hrundi.
V algerður Sverrisdóttir, viðskipta- og iðnaðarráðherra, fékk í vikunni athyglisverða fyrirspurn frá Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Anna Kristín spyr: „Hvernig hyggst ráðherra byggðamála bregðast við fyrirsjáanlegum fjárhagserfiðleikum Byggðastofnunar í kjölfar breytinga á fjármálamarkaði?“ Eins og jafnan þegar slíkra spurninga er spurt á þingi býr það að baki að knýja ráðherrann til að lofa auknum fjárframlögum til málaflokksins, það er að segja að fá aðstoð ráðherrans við að kafa dýpra í vasa skattgreiðenda. Engu verður spáð um það hér hvert svar viðskipta- og iðnaðarráðherra við fyrirspurn Önnu Kristínar verður, en augljóst er hvert svarið ætti að vera. Fjárhagsvandi Byggðastofnunar felst í því að stofnunin lánar þeim fé sem fá ekki lán á eðlilegum forsendum vegna þess að áhættan af útlánunum er ekki í samræmi við væntanlegan ávinning lánveitandans. Þetta felur í sér að eina lausnin á vanda Byggðastofnunar er að leggja hana niður. Allar aðrar „lausnir“ væru í því fólgnar að taka meira úr vösum skattgreiðenda og flytja í vasa þeirra sem hljóta náð fyrir augum Byggðastofnunar.