Ö
Ætli veruleg hætta sé á því að Alaska verði óbyggilegt sökum hita? |
ldungadeildarþingmaðurinn John McCain reynir nú að koma í gegnum bandaríska þingið frumvarpi sem hlotið hefur viðurnefnið „Kyoto Lite“ eða Létt-Kyoto upp á íslensku. Sem kunnugt er þá hefur á bandaríska þinginu ríkt allgóð sátt um að halda Bandaríkjunum utan við Kyoto-samninginn, en eins og glöggir lesendur hafa eflaust giskað á gengur Létt-Kyoto út á að lögfesta þar í landi vægari útgáfu af samningnum. Dr. Patrick J. Michaels loftslagsfræðingur fjallar um þetta í nýrri grein sem birt er á vef Cato-stofnunarinnar og er tilefnið stuðningur tveggja öldungadeildarþingmanna frá Alaska. Michaels bendir á að ef allar þjóðir færu eftir Kyoto-samningnum, sem mun alls ekki verða, þá hafi stuðningsmenn samningsins fundið út að áhrif hans á hita andrúmslofts jarðar verði um 0,07°C eftir hálfa öld, sem sé svo lítil breyting að hún mælist ekki. Það sé með öðrum orðum viðurkennt að árangurinn af Kyoto-samningnum verði, ef nokkur, ekki mælanlegur. Þetta er út af fyrir sig umhugsunarvert, þó að þetta sé að vísu ekkert nýtt heldur nokkuð sem þeir sem hafa kynnt sér samninginn hafa vitað alla tíð. Sumir þeirra hafa þess vegna undrast það kapp sem lagt var á að fullgilda hann bæði hér á landi og annars staðar, því að þó að hitamunurinn sé ekki merkjanlegur þótt í einu og öllu yrði farið að samningnum, þá er ljóst að hann mun hafa neikvæð áhrif á hagvöxt og þar með velmegun – það er að segja ef svo ólíklega vildi til eftir honum yrði farið.
Michaels benti á annað sem ekki er síður athyglisvert og er þar að auki nýtt fyrir flestum, en það er að meðalhiti í Alaska hefur farið lækkandi síðasta aldarfjórðunginn. Því hefur verið haldið fram að núverandi loftslag á norðurslóðum ógni lífsháttum frumbyggja, en Michaels segir að Alaska hafi verið byggt í að minnsta kosti 12.000 ár og að oft hafi komið upp tímabil þar sem lofthiti hafi verið hærri en hann sé nú og menning frumbyggja þrátt fyrir það þrifist vel. Í því sambandi vísar hann meðal annars til rannsóknar sem 30 vísindamenn, sem sérhæfi sig í loftslagi fyrr á öldum, hafi í fyrra birt í tímaritinu Quaternary Science Reviews. Þá bendir hann á grein eftir dr. Feng Sheng Hu í Proceedings of the National Academy of Sciences, þar sem fram komi að á þremur tímabilum á síðustu 2.000 árum hafi lofthiti í Alaska verið ámóta hár og nú. Þessi tímabil séu frá árinu núll til ársins 300, frá 850 til 1200 og frá árinu 1800 til dagsins í dag. Og Michaels vekur athygli á því að mannskepnan hafi engin áhrif haft á hita fyrir 200 árum.
Um lofthita í Alaska á okkar tímum vísar Michaels í enn eina rannsóknina þar sem fram komi að þegar tímabilið 1951 til 2001 sé skoðað megi sjá að hiti hafi hækkað í Alaska. Þrátt fyrir þetta hafi hitinn farið lækkandi bæði fyrri hluta tímabilsins og seinni hluta þess, en hækkunin á hita tímabilsins í heild stafi af hækkun eitt árið, 1976, sem geri meira en vega upp lækkunina fyrir og eftir. Michaels segir að líkön vísindamanna styðji það ekki að þessi skyndilega hækkun hita geti verið af manna völdum. Vafalaust verður langt í að menn fái vitneskju um hvað olli þessari skyndilegu hitabreytingu, en allt bendir til að hún verði að skrifast á duttlunga náttúrunnar. Þessir duttlungar hafa orðið til þess að lofthiti virðist hafa farið hækkandi í Alaska í hálfa öld, þegar staðreyndin er sú að bæði fyrri og seinni hluta þess tímabils hefur hitinn farið lækkandi. Og það er ekki síst athyglisvert að á því tímabili sem manninum er iðulega kennt um að hitinn fari hækkandi á norðurslóðum, þ.e. síðasta aldarfjórðunginn eða svo, hefur hitinn, að minnsta kosti samkvæmt þeim tölum sem dr. Patrick J. Michaels vitnar til, farið lækkandi í Alaska.