Vefþjóðviljinn vék á laugardaginn að þeirri hugmynd meirihluta R-listans í borgarstjórn Reykjavíkur að bjóða síðar á öldinni upp á „gjaldfrjálsan leikskóla“. Það sem R-listinn á við með þessari hugmynd er ekki að fóstrur og aðrir starfsmenn leikskóla ætli framvegis að vinna án endurgjalds heldur að aðrir en notendur leikskólanna greiði allan kostnað við rekstur þeirra. Að kalla þessa gjaldnauðung gjaldfrelsi er eftir öðru í umræðunni. Aðrir en foreldrar leikskólabarna greiða nú þegar stóran hluta af þessum kostnaði en R-listinn sér þarna ónýtt tækifæri til útgjaldaaukningar og skattahækkana og þá þarf víst ekki að spyrja að leikslokum. Þegar þetta kerfi verður komið á legg má heita svo að þegar börnin eru heima hjá sér eru foreldrunum greiddar bætur sem fæðingarorlof og þegar börnin eru vistuð annars staðar er allur kostnaður við það einnig gerður upp af skattgreiðendum.
Þótt R-listinn sé veikur fyrir útsvarshækkunum og skuldasöfnun kemur það jafnvel Vefþjóðviljanum á óvart að hann skuli fara þessa leið. Reykjavíkurborg og mörg önnur sveitarfélög hafa grenjað látlaust undan því í mörg ár að þau hafi ekki nægar tekjur þrátt fyrir að flest þeirra hafi hækkað skatta af miklu kappi og einnig notið hagvaxtarins með hærri skatttekjum. Það er því ekkert annað en fullkomið ábyrgðarleysi að stofna til nýrra útgjalda. Það sem ræður mestu um þetta er þó líklega valdabrölt innan R-listans, bæði milli flokka og einstaklinga innan flokkanna. Vinstri grænir hafa verið sá flokkur sem mesta áherslu hefur lagt á hugmyndina um gjaldnauðungina. Steinunn V. Óskarsdóttir borgarstjóri Samfylkingarinnar lagði þessa tillögu hins vegar skyndilega fram á dögunum og virtust sumir borgarfulltrúar R-listans koma af fjöllum þegar tillagan var gerð opinber. Þetta gerði Steinunn í tvennum tilgangi. Annars vegar til að ná frumkvæði í málinu af vinstrigrænum og hins vegar til að styrka eigin stöðu innan Samfylkingarinnar fyrir val á næsta borgarstjóraefni. Nú man enginn eftir því að vinstrigrænir hafi verið að burðast með þessa hugmynd frá því þeir klufu Alþýðuflokkinn í kreppunni.
Þótt innanbúðarmál R-listans ráði miklu um hvernig þetta mál ber að verður ekki síður áhugavert að fylgjast með því hver viðbrögð minnihlutans í borgarstjórn verða. Þótt minnihluti Sjálfstæðisflokks hafi ekki lagt fram margar eða miklar tillögur um sparnað í rekstri borgarinnar hefur hann þó talað gegn skattahækkunum R-listans og varað mjög sterklega við skuldasöfnuninni. Þegar menn hafa talað svo afdráttarlaust um stöðuna í rekstri borgarinnar getur vart verið að þeir muni styðja þessa nýjustu útgjaldahugmynd R-listans.
Ígær sagði Vefþjóðviljinn að sú ákvörðun Alþingis að veita Robert Fischer ríkisborgararétt hér, væri umdeilanleg. Það er vægt til orða tekið. Þegar þannig háttar til um eitt mál að Garðar Sverrisson er eindreginn fylgismaður, en The Washington Post harður andstæðingur – hverju er þá að treysta? Hvaða signal getur venjulegt fólk notað til að vita hvaða afstöðu á að forðast?