Í Viðskiptablaðinu í gær er sagt frá því að Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, ræði í pistli á heimasíðu sinni um tiltekna fyrirtækjasamsteypu og hvernig hún noti þá fjölmiðla sem hún ræður yfir. Í pistli formanns Samfylkingarinnar segir meðal annars:
Nú er mikið talað um samþjöppun á eignarhaldi í fjölmiðlun. Ægivald Baugs stingur marga í augu. Við stjórnmálamenn gætum vafalítið bent á dæmi um það hvernig vild Baugs virðist stundum birtast í sérstakri umhyggju fyrir þeim stjórnmálamönnum og konum sem Baugur hefur velþóknun á. Í atvinnulífinu kvarta menn hástöfum undan því að Baugsmiðlarnir hygli fyrirtækjum sem þeim tengjast með fréttum og umfjöllun [um þá] sem þeir eiga í eða hafa tengsl við. |
Það er athyglisvert að heyra þetta frá formanni Samfylkingarinnar. Og það sem einnig er athyglisvert er hvernig aðrir fjölmiðlar hafa brugðist við. Ef einhverjir aðrir stjórnmálamenn hefðu sagt þetta, til dæmis þingmenn Sjálfstæðisflokksins eða ráðgjafar formanns Framsóknarflokksins, þá er hætt við að ýmsir fjölmiðlar hefðu gengið af göflunum. Ætli þá hefði ekki verið fullyrt að menn væru einfaldlega með eitthvað „á heilanum“ og þeim fullyrðingum fylgt eftir sálfræðikenningum og fréttaskýringum sem allar gengju út á hið sama. Rætt hefði verið við blaða- og fréttamenn sem væru hneykslaðir og leiðir yfir aðförinni að starfsheiðri sínum, og svo framvegis. En þegar ábendingin kemur frá formanni Samfylkingarinnar, þá er eins og ekkert hafi gerst, ekkert sem taki því að vekja athygli fólks á. Enginn uppsláttur, engin frétt, engin viðbrögð.
Þó hljóta allir að sjá að orð formanns Samfylkingarinnar eru fyllilega fréttnæm, hvort sem menn taka hann trúanlegan eða ekki. Og ekki verða þau minna athyglisverð þegar hugsað er til þess, hversu fjarri það hefði verið honum að segja frá þessari skoðun sinni í fyrra, þegar stjórnarandstaðan og ákveðnir fjölmiðlar tóku höndum saman um að láta að því liggja að engin heiðarleg sjónarmið – hvort sem menn eru svo samþykkir þeim eða ekki – gætu legið að baki tilraunum meirihluta alþingis til þess að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum. Þá þóttu öll orð formanns Samfylkingarinnar um fjölmiðla mjög fréttnæm. Núna, þegar hann fer hörðum orðum um ákveðna fjölmiðla, þá þykir fáum fjölmiðlum það fréttnæmt.
Og orðalag formanns Samfylkingarinnar verður vart misskilið. Hann segir að fjölmiðlar í eigu þessa tiltekna fyrirtækis hygli „þeim stjórnmálamönnum og konum sem Baugur [hafi] velþóknun á“. „Stjórnmálamönnum og konum“ segir hann. Þarna skýtur hann sérstaklega inn orðunum „og konum“, sem auðvitað er ekki gert út í loftið. Það er til dæmis gaman að lesa setninguna í heild. Össur segir: „Við stjórnmálamenn gætum vafalítið bent á…“. Hann segir auðvitað ekki „Við stjórnmálamenn og konur gætum vafalítið bent“. Þegar talað er um stjórnmálamenn er vitaskuld jafnt átt við konur og karla. Þegar Össur Skarphéðinsson talar um „sérstaka umhyggju fyrir þeim stjórnmálamönnum og konum sem Baugur hefur velþóknun á“, þá vita væntanlega flestir hvað klukkan slær. Hann er að hugsa til ákveðinnar konu. Hann á ekki við Dagnýju Jónsdóttur.
En þetta vilja fáir fjölmiðlar ræða fram og til baka.
En svo getur verið að hér hafi orð Össurar bara alveg verið misskilin. Viðskiptablaðið gerði það sem aðrir fjölmiðlar gerðu ekki og spurði Össur við hvaða stjórnmálamenn og konur hann ætti. Og fékk svarið: „Ég finn að í spurningunni liggur ef til vill að fiskað sé eftir hvort ég eigi við meðframbjóðanda minn til formanns Samfylkingarinnar en það er af og frá.“
Já, það er af og frá. Svo kannski var það Dagný sem hann átti við.