Umræður um útgjöld hins opinbera eru oft sérkennilegar. Iðulega heyrist í hinum og þessum talsmönnum þrýstihópa sem telja að ekki sé nægilega miklu fé varið til áhugamáls þeirra og skiptir þá litlu hversu mikið fé skattgreiðendur eru þegar látnir inna af hendi til þessa áhugamáls eða hvort útgjöld til málsins hafa verið aukin verulega. Það að hið opinbera hafi aukið framlagið til þessa tiltekna máls umtalsvert virðist alls engu máli skipta, því er jafnvel haldið fram að útgjöldin hafi verið dregin saman þegar þau hafa verið aukin svo um munar.
Eitt dæmi um þetta mátti heyra í Spegli Ríkisútvarpsins síðast liðinn þriðjudag þegar þá frambjóðandi til rektors Háskóla Íslands og nú nýkjörinn rektor, Kristín Ingólfsdóttir var í viðtali við „hlutlausa“ fréttamenn Ríkisútvarpsins. Í viðtalinu sagði Kristín: „…við megum hreinlega ekki við því að fjárframlag til Háskóla Íslands lækki enn frekar.“ Þessi „lækkun“ er svolítið sérstök, því að þegar ríkisreikningar fyrri ára eru bornir saman við fjárlög þessa árs má sjá að framlag úr ríkissjóði til Háskóla Íslands hefur verið hækkað um 44% á síðustu fimm árum. Flestum þætti þetta dágóð hækkun, enda tvöföld hækkun vísitölu neysluverðs á tímabilinu og meira að segja langt yfir hækkun launavísitölu, sem þó hefur hækkað um ríflega þriðjung.
Þá má benda á að sem hlutfall af landsframleiðslu hafa framlög ríkisins til háskóla einnig hækkað verulega. Þegar skoðaðar eru tölur úr skýrslum OECD má sjá að á árunum 1995 til 2001, en OECD birtir tölur fyrir mörg lönd og er ekki með allra nýjustu tölur, hefur framlag ríkisins til háskóla á þennan mælikvarða um það bil tvöfaldast. Eins og sjá má af tölunum hér að ofan hefur þessi þróun haldið áfram, þannig að allt tal um lækkun framlags til háskóla er marklaust. Framlög ríkisins til háskóla, bæði Háskóla Íslands og annarra, hefur aukist verulega síðasta áratuginn eða svo.
Þegar horft er framhjá misskilningi nýkjörins rektors um þróun fjárframlaga ríkisins til háskóla má sjá að áhyggjur almennings – með öðrum orðum skattgreiðenda – ættu miklu frekar að vera hömlulaus útgjaldaaukning til háskóla en „lækkun“ fjárframlaganna. Verkefni nýs rektors getur því ekki orðið að kalla eftir auknum framlögum ríkisins heldur að nýta betur það mikla fé sem ríkið leggur til Háskóla Íslands.