Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingu lagaákvæða sem varða sölu áfengis og tóbaks. Flutningsmenn frumvarpsins eru úr öllum stjórnmálaflokkunum sem sæti eiga á Alþingi nema flokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Þingmenn vinstrigrænna langaði að prófa að vera á móti einhverju svona einu sinni.
„Lög um vín á Íslandi hafa lengi nær eingöngu tekið mið af misnotkun áfengis. Skattlagning áfengis er eingöngu miðuð við að skattleggja fyllerí. Afleiðingin er fáránlega hátt verð á vínum sem eru mjög ódýr í innkaupum.“ |
Með frumvarpinu er lagt til að einokun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á sölu áfengis veðri afnumin. Þó er gert ráð fyrir að einokun ríkisins verði áfram á sölu áfengis sem hefur yfir 22% vínandainnihald. Ef frumvarpið nær fram að ganga verður einkaaðilum heimilt að selja púrtvín sem menn drekka jafnan óþynnt með 20% styrkleika en ekki gin sem sjaldan er drukkið í slíkum styrk. Þeim væri væntanlega heimilt að selja forblandaða drykki eins og Bacardi Breezer en ekki Bacardi og sítrónusafa til að blanda heima í stofu.
Ástæðan fyrir því að menn fara þessa leið er sjálfsagt sú að það þykir líklega auðveldara að selja mönnum, bæði innan þings og utan, þá hugmynd að gírugir kaupmenn selji aðeins léttvín og bjór en klárt brennivín. Sennilega væru flutningsmenn frumvarpsins nokkru færri ef gengið væri alla leið og lagt til að einkaaðilum væri heimilt að selja allar tegundir áfengis.
Þegar menn fikra sig út úr kjánalegri stöðu þarf oft að fara einkennilegar leiðir. Það yrði vissulega einkennilegt ef áfengisverslun ríkisins sæti uppi með einvörðungu sterkt vín. Það er vandséð að rekstur slíkra búða væri réttlætanlegur þótt ýmislegt leyfist í ríkisrekstrinum. Neysla á sterkum vínum hefur dregist mjög saman hin síðari ár, ekki síst eftir að bjórinn var leyfður og þetta fyrirkomulag gæfi bjór og léttum vínum mikið forskot á keppinauta sína úr eimuðu deildinni. Ef að þessi leið verður farinn væri þá ekki rétt að slík verslun ríkisins með sterk vín seldi einnig blandið í forvarnarskyni? Það mætti kannski láta kókið fylgja með brennsanum. En verslunin mætti ekki selja forblandaða drykki eins og bjórlíkið. Þessi leið væri því ósanngjörn gagnvart framleiðendum – og þá ekki síður neytendum – sterkra drykkja. Kannski er þetta þó eina færa leiðin í pólitískum veruleika.
Á dögunum stofnaði hópur ungs fólks samtök um bætta vínmenningu. Þessi samtök vilja losa um þau höft sem eru á verslun með áfengi, bæði ríkiseinokunina og skattlagninguna. Samtökin hafa sett upp vefinn engavitleysu.is þar sem þau kynna stefnu sína og starfsemi. Í stefnu þeirra segir meðal annars:
Þetta tvennt: höft á sölu og hátt verð teljum við vera meginorsök óheilbrigðrar vínmenningar.
Við teljum það dæmigert fyrir þennan kolranga hugsunarhátt að þegar rætt er um áfengisdrykkju landsmanna er ávallt talað um áfengislítra selda úr ÁTVR. Því fleiri áfengislítrar – því verra. Samkvæmt þeim forsendum er það verra að hjón á miðjum aldri drekki sitt hvort rauðvínsglasið á hverju kvöldi en að eiginmaðurinn sturti í sig vodkaflösku um hverja helgi. |
Lög um vín á Íslandi hafa lengi nær eingöngu tekið mið af misnotkun áfengis. Skattlagning áfengis er eingöngu miðuð við að skattleggja fyllerí. Afleiðingin er fáránlega hátt verð á vínum sem eru mjög ódýr í innkaupum. Rauðvínsflaska sem kostar 200 krónur víðast hvar í heiminum er jafnvel seld á yfir 1.000 krónur í áfengiseinokun ríkisins. Þessi stefna er mjög ósanngjörn gagnvart efnaminna fólki sem vill neyta víns. Það hefur hreinlega ekki efni á því að njóta þessarar vöru.
Þingmenn vinstrigrænna hafa ósjaldan lýst áhyggjum af stöðu verslunar með brýnustu nauðsynjar á landsbyggðinni. Þeir hafa jafnframt haft áhyggjur af því að stórar keðjur séu að sölsa undir sig matvörumarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Það er því umhugsunar vert fyrir vinstrigræna þingmenn, sem virðast ekki vilja slaka á einokun ríkisins í áfengisverslun, að ef þessari einokun væri aflétt myndi verða skotið nýjum stoðum undir matvöruverslun á landsbyggðinni og ekki síður kaupmanninn á horninu á höfuðborgarsvæðinu.