Miðvikudagur 16. febrúar 2005

47. tbl. 9. árg.

K

Nú vilja kaffistofuspekúlantar að skattgreiðendur eyði mörgum milljörðum króna í jarðgöng fyrir 900 manns.

affistofur geta verið háskalegir staðir. Þá er ekki aðeins átt við að viðstaddir geti brennt sig á sjóðandi kaffinu eða að beinakexið geti staðið í þeim. Nei, mesta hættan stafar af því sem skrafað er um á milli bitanna og sopanna. Þeim sem sækja kaffistofuna mest stafar ekki mest ógn af henni, þvert á móti eru það þeir sem ekki eru til staðar sem eru í mestri hættu. Þegar verst lætur getur ógætilegt kaffistofuhjal endað í harðsvíruðu einelti og þá er voðinn vís. Og það eru ekki aðeins samverkamenn kaffistofuspjallara sem geta orðið fyrir eineltinu, nei, fólk sem er víðs fjarri getur líka lent illa í því. Þannig upplýsti Pálína Vagnsdóttir, íbúi í Bolungarvík, í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi, að á kaffistofunni í vinnunni hennar hefði umræðan einn morguninn ekki alls fyrir löngu orðið til þess að hún tók sig til og hóf undirskriftarsöfnun sem stefnt er gegn alveg saklausum hópi manna, skattgreiðendum.

Pálína gerir kröfu um það að skattgreiðendur verði látnir standa straum af gerð jarðganga á milli Bolungarvíkur, Ísafjarðar og Súðavíkur og að þetta gerist sem allra fyrst. Pálína segist aðspurð bjartsýn á árangur, enda er stuðning greinilega víða að hafa: „Ég get alveg sagt þér það að trú flytur fjöll og hérna miðað við viðbrögðin sem ég hef fengið bara hjá mínu heimafólki og nágrannabyggðalögum þá er ég mjög bjartsýn og við höldum ótrauð áfram.“ Já, stuðningurinn við göngin er bókstaflega út um allt, bæði hjá heimafólki og í nágrannabyggðalögum og þarf þá varla frekari vitna við. Þó er ástæða til að bæta því við að Guðni Geir Jóhannesson, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, telur að allir heilvita menn sem til þekki sjái að „það er ekkert annað sem kemur til greina hérna en göng.“

Þótt allir heilvita menn séu á einu máli ætlar Vefþjóðviljinn að leyfa sér að halda fram því sjónarmiði að ýmislegt annað komi til greina en göng. Eitt af því er óbreytt ástand, sem er mun fýsilegri kostur fyrir nær alla sem gert yrði að greiða göngin, það er að segja skattgreiðendur. Vegagerðin hefur lagt mat á hver kostnaður yrði af umfangsmiklum vegabótum til Bolungarvíkur sem meðal annars fælu í sér tæplega fjögurra kílómetra gangagerð. Í nóvember 2002 var kostnaðurinn talinn um 2,4 milljarðar króna. Þær framkvæmdir sem krafist er í undirskriftasöfnuninni sem nú stendur yfir eru enn umfangsmeiri og þar með enn dýrari.

Gangagerð upp á marga milljarða króna fyrir fáa íbúa er langt frá því sjálfsögð og reyndar þvert á móti alveg fráleit. Þessu ber ekki að taka þannig – eins og stundum er reynt að gera – að íbúar fámennra staða séu eitthvað minna virði eða jafnvel ómerkilegri en íbúar fjölmennari staða. Svo er vitaskuld ekki og þeir eiga einfaldlega að vera metnir til jafns við aðra. Ef gerð eru göng fyrir milljarða króna fyrir íbúa Bolungarvíkur er hins vegar verið að setja þá skör hærra en flesta aðra landsmenn, sérstaklega þá sem búa í þéttbýlinu. Íbúar Bolungarvíkur eru aðeins rúmlega níu hundruð og til samanburðar má nefna að í Reykjavík búa um 114 þúsund manns, eða ríflega 120 sinnum fleiri en í Bolungarvík. Ef gert er ráð fyrir að vegabæturnar sem nú er farið fram á með undirskriftasöfnun Pálínu Vagnsdóttur kostuðu „ekki nema“ 2,4 milljarða króna, sem er verulegt vanmat, þá er það sambærilegt og að einhverjir íbúar Reykjavíkur færu fram á vegabætur upp á nærri 300 milljarða króna. Hvað ætli Bolvíkingar og aðrir í hinum dreifðari byggðum segðu um slíka kröfugerð? Ætli þeim þætti þetta ekki dálítið frekt?