Eflaust þekkja margir til þess, sérstaklega á stærri vinnustöðum, að sumir starfsmenn hætta smátt og smátt að fást við það sem í þeirra starfi liggur eða þeim var falið að leysa og fara að gera eitthvað allt annað. Oft byrjar þetta þannig að leiðinlegasti hluti starfsins er látinn sitja á hakanum eða honum laumað yfir á samstarfsmenn. Því næst finna menn sér eitthvað lítið og skemmtilegt verkefni og koma því haganlega fyrir í stað leiðinlegasta verkefnisins sem nú er komið yfir á aðra starfsmenn. En þá er náttúrulega eitthvað annað verkefni orðið leiðinlegasta verkefnið og því er þá skipt út fyrir enn annað lítið og skemmtilegt verkefni og svona gengur þetta koll af kolli þangað til starfsmaðurinn situr uppi með eintóm skemmtileg verkefni. En jafnvel skemmtilegust verkefni geta orðið leiðinleg og þá oftast þegar kemur að því að ljúka þeim. Og hvað gerir starfsmaðurinn þá, jú hann passar sig á því að binda sig í önnur verkefni áður en kemur kemur að lokum hvers verkefnis og hlýtur svo að launum hrós fyrir að vera sífellt að byrja á nýjum og góðum verkum. Á endanum átta menn sig svo kannski á því fátt liggur eftir starfsmanninn annað en kostnaður við allskyns ólokin verkefni en menn átta sig þó alls ekki alltaf á því og allra síst á þeim vinnustöðum þar sem engu skiptir hvort nokkru verki sé lokið.
Orkuveita Reykjavíkur er í seinni tíð orðin eins og þessi óþolandi starfsmaður og það sem verra er það er eins og hún vinni einmitt á vinnustað þar sem engu skiptir þó flestum verkum sé ólokið. Orkuveitan var nefnilega ráðin í starf þriggja annarra veitna þar sem ein veitti rafmagni, önnur heitu vatni og sú þriðja neysluvatni. Þessu starfi átti hún að sinna en með tímanum fór henni að leiðast og henni leiddist og leiddist alveg þangað til hún leiddist út í símarekstur. Þá var hún komin með svona skemmtilegt verkefni og plataði alla með því að segja að nú kæmi internetið úr innstungunni, rafmagnsinnstungunni. En svo þegar ekki kom neitt internet úr innstungunni og menn fór að lengja eftir því þá sagði Orkuveitan að hún væri bara ekki lengur í þessu verkefni, núna væri hún að leggja ljósleiðara og þá kæmi sko internetið úr innstungunni, bara annarri innstungu, nýrri innstungu sem menn þyrftu að kaupa sér.
Og svona hefur þetta gengið, þegar henni hefur leiðst þá leiðist hún út í eitthvað annað eins og að reka Línu punkt net og rækta rækjur og byggja hús og kannski kynda og lýsa Hellisheiðina. Orkuveitan, sem var ráðin til að veita varma, rafmagni og vatni til Reykvíkinga er sem sagt í öðrum og skemmtilegri verkefnum. Hún sinnir að vísu sínum upprunalegu verkefnum, ennþá, en hún tekur bara alltof mikið fyrir það. Og nýju verkefnunum hefur hún ekki lokið því hluti af að ljúka þeim er að greiða fyrir þau og það hefur hún ekki gert heldur áframsent reikningana á borgarbúa í formi skatta og hærra verðs fyrir þjónustuna.
Það þarf bara að selja þessa Orkuveitu. Þá kaupir hana einhver sem hefur gaman af að reka orku- og vatnsveitu og þá hagnast allir nema errlistinn.