Hvernig ætlar ríkið að bregðast við þessum vanda? Hversu mikið ætlar ríkið að leggja af mörkum? Voðalega er þetta nánasarlegt, hvers vegna gerir ríkið ekki miklu meira? Einhvern veginn svona er oft spurt og þess á milli er fullyrt að ríkið sýni engan skilning og jafnvel gefið í skyn að þar á bæ séu menn sem hafi lítinn áhuga á að hjálpa þeim sem minna mega sín. Eða að þeir sem sitja í stjórnarráðinu hafi engar áhyggjur af einhverjum vandamálum sem bent er á að kunni að vera uppi hér á landi eða erlendis. Staðreyndin er þó sú, og það vill stundum gleymast þegar kallað er á ríkið til að leysa hvers manns vanda, að það er ekki endilega hlutverk ríkisins að bregðast við hverju því vandamáli sem kann að koma upp. Sum vandamál – eða bara viðfangsefni – eru þess eðlis að það er miklu heppilegra og jafnvel eðlilegra að einkaaðilar, einstaklingar og félög þeirra, komi að lausn þeirra. Reynslan hefur reyndar sýnt að ríkið er oft og tíðum beinlínis óheppilegasti aðilinn til að leysa ýmis vandamál. Og í sumum tilvikum á alls ekkert við að ríkið grípi inn í til að leysa málin því að þau falla ef til vill utan eðlilegs verksviðs ríkisins.
Fyrir fáeinum vikum gengu miklar hamfarir yfir mörg lönd Asíu eins og öllum mun vera kunnugt um. Íslenska ríkið brást skjótt við og ákvað að verja nokkrum milljónum króna af skattfé Íslendinga til hjálparstarfsins. Fljótlega tóku að heyrast þær raddir að upphæðin væri allt of lág og það jafnvel fullyrt að Íslendingar væru þar með að gefa allt of lítið. Þeir sem héldu þessu fram gleymdu að Íslendingar og íslenska ríkið eru ekki eitt og hið sama, en almenningur hafði þá þegar gefið háar fjárhæðir. Eftir því sem tíminn leið kom í ljós að hörmungarnar á hamfarasvæðunum voru meiri en menn höfðu gert sér grein fyrir í upphafi og þá ákvað íslenska ríkið að margfalda stuðning sinn. Einnig var farið út í risavaxið söfnunarátak meðal almennings eins og þeim er í fersku minni sem fylgdust með fjölmiðlum um síðustu helgi og í síðustu viku. Vegna þess átaks lét íslenskur almenningur aftur háar fjárhæðir af hendi rakna.
Það er því líklega óhætt að segja að hinn almenni maður hér á landi hafi reynst reiðubúinn til að láta nokkurt fé af hendi rakna til þess góða málefnis að styðja við bakið á þeim sem eiga um sárt að binda vegna hamfaranna í Asíu. En hvaða ályktun ætti að draga af þessu? Ætli þetta þýði að ríkinu hafi borið að leggja fram fé vegna þessa málefnis, eða skyldi þetta vera vísbending um að það hafi verið óþarfi? Enginn ætti að velkjast í vafa um að sú staðreynd að Íslendingar reyndust gjafmildir þýðir að ekki var jafn brýn ástæða til og ella að ríkið gripi inn í og legði fram fé. Greinilegt er að hinn almenni maður er reiðubúinn til að sjá af fé til stuðnings góðu málefni og það má jafnvel halda því fram að hann sé því fúsari til þess sem ríkið er ófúsara. Ef ríkið grípur ekki inn í gerir hann sér betur grein fyrir að ábyrgðin af því að styðja málstað sem hann telur réttan er hans en ekki annarra.
Þar fyrir utan má efast um að ríkið eigi yfirleitt að leggja fram fé til slíkra mála. Það má ekki gleyma því hvaðan féð er komið, það er komið frá skattgreiðendum, það er að segja öllum almenningi. Eðlilegast er að skattgreiðendur ákveði sjálfir hvort að málstaðurinn er nægilega góður til að njóta stuðnings þeirra eða ekki. Ríkið getur aftur á móti auðveldað mönnum að sýna góðmennsku og náungakærleik með því að létta af þeim sköttum þannig að þeir hafi meira á milli handanna til að verja til þeirra málefna sem þeir sjálfir telja mikilsverð.
Svo má benda á að þegar ríkið ákveður að styrkja tiltekið málefni er alltaf hætta á því að þar sé alls ekki um að ræða málefni sem nýtur mikils stuðnings í raun. Þetta geta beinlínis verið óvinsæl málefni eða ef til vill málefni sem skjóta upp kollinum og þykja líkleg til skyndivinsælda. Margir segjast styðja þau, en styðja þau í raun ekki þegar á hólminn er komið. Sem dæmi má nefna að ríkið hefði getað tekið sig til og ákveðið að styðja málstað sem ýmsir hafa haldið fram að njóti mikils stuðnings, en það er barátta svo kallaðrar Þjóðarhreyfingar. Þessi hreyfing ætlar í þessari viku að birta auglýsingu í New York Times þar sem hún lætur eins og hún tali fyrir munn allra Íslendinga í tilteknu máli. Í ljós hefur komið að söfnun vegna auglýsingarinnar hefur gengið afar treglega því ef marka má fréttir hefur tekið hálfan annan mánuð að safna fyrir kostnaði upp á um þrjár milljónir króna, sem er aðeins örlítið brot af því sem íslenskur almenningur hefur á fáeinum dögum ákveðið að senda til Asíu. Þjóðarhreyfingin svo kallaða, sem jafnan lætur sem hún hafi nánast alla Íslendinga að baki sér, hefur auglýst símanúmer þar sem tekið er sjálfkrafa við 1.000 króna framlögum. Ef gert er ráð fyrir að enginn hafi gefið hærri fjárhæð, sem verður að teljast ólíklegt, þýðir þetta að hreyfingunni hefur aðeins með erfiðismunum tekist að fá um 3.000 manns til að sýna stuðning við málstað sinn. Það verður að teljast afar rýr útkoma eftir látlausan áróður í formi endalausra viðtala, frétta, útvarpsþátta og blaðagreina.