Á vef samgönguráðuneytisins var í fyrradag birt frétt sem er í senn óvenjuleg og ánægjuleg. Fyrirsögn fréttarinnar er „Minnkum skriffinnskuna!“ og í fréttinni segir að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hafi ákveðið að „skera upp herör við óþarfa skriffinnsku á sviði samgöngumála“. Þar segir ennfremur að íslenska réttarríkið byggist á lögum og reglum, en að við setningu þeirra sé mikilvægt „að gæta hófs og að ávallt sé haft í huga að aðgerðir eða afskipti ríkisvaldsins séu ekki umfram þá áhættu sem í húfi er eða þá hagsmuni sem varðir eru“. Í fréttinni kemur fram að samgönguráðherra hafi skipað vinnuhóp sem fara eigi í gegnum lög og reglugerðir á sviði samgönguráðuneytisins með það að markmiði að gera tillögur um úrbætur þar sem regluverkið þyki „óþarflega óljóst, flókið eða íþyngjandi“.
Þessi tilraun Sturlu Böðvarssonar til að minnka skriffinnsku er virðingarverð og verður öðrum vonandi til eftirbreytni því að víða hjá hinu opinbera, bæði ríki og sveitarfélögum, er allt of mikil skriffinnska, allt of ýtarlegar reglur og allt of lítið svigrúm skilið eftir fyrir einstaklinginn. Oft og tíðum virðist sá hugsunarháttur ríkja hjá hinu opinbera að það verði að vera í gildi reglur um alla mögulega og ómögulega hluti. Og því má treysta að ef til er svið þar sem ekki eru þegar í gildi nákvæmar og íþyngjandi reglur þá eru til menn hér og þar í þjóðfélaginu sem hafa ríkan vilja til að láta auka regluverkið á því sviði. Sumir þessara manna starfa hjá hinu opinbera hér á landi, en alls ekki allir. Og þegar opinbera starfsmenn skortir hugmyndir að nýjum reglum geta þeir treyst því að hugmyndirnar munu fljótlega berast. Það verður annaðhvort frá einhverjum innan lands, gjarnan hagsmunasamtökum eða þrýstihópum, eða frá alþjóðlegum stofnunum, yfirleitt Evrópusambandinu. Af þessum sökum er sérstaklega mikilvægt að stöðugt sé unnið að því að vinda ofan af regluverkinu, þó ekki væri nema til að hægja eilítið á vexti þess.