Fimmtudagur 6. janúar 2005

6. tbl. 9. árg.
Snemma á síðustu öld gerðu Íslendingar sér skýra grein fyrir því að almenn skólaganga, fjölhæf kennarasveit og víðtæk menntun voru forsenda árangurs, að framfarirnar eiga sér rætur í litríkum og öflugum fræðslumálum. Kennaraskóli Íslands varð ásamt Háskólanum lykilstofnun í öflugri sókn. Rannsóknir sérfræðinga um allan heim hafa nú sýnt að menntun æskufólksins er besta fjárfestingin, að þær þjóðir skara fram úr sem veita fræðslu og uppeldi forgang, líta á skólana sem helsta drifkraft hagsældar í framtíðinni. …
Já, skólarnir eru svo sannarlega orkuver framtíðarinnar, uppspretta hagsældar um ókomin ár. Og lengi býr að fyrstu gerð. Í grunnskólum ráðast farsæld og framfarir þjóðarinnar. Án öflugrar fræðslu innan þeirra kann okkur að reynast erfitt að halda til jafns við aðrar þjóðir. Efling grunnskólans er því ekki bara menntamál í hefðbundnum skilningi Stjórnarráðsins; hún er einnig atvinnumál, viðskiptamál, iðnaðarmál, orkumál; í reynd undirstaða árangurs og framfara á öllum sviðum. …
Það dugir þó skammt að mæla fagurt um gildi menntunar í hátíðaræðum; við verðum að sýna í verki að þjóðin hafi einbeittan vilja í þessum efnum. Það má aldrei aftur henda að fyrstu kynni barna af skólastarfi séu iðjuleysi mánuðum saman vegna deilna þeirra sem ábyrgð bera. …
Forsendan verður þó ætíð sú að kennurum sé sómi sýndur, að kennsla sé metin að verðleikum og kennarastarfið sé keppikefli, að ánægja og stolt ríki innan stéttarinnar. Án öflugra kennara getum við aldrei gert grunnskólann að úrvalsskóla. Við sem eldri erum munum kennara sem gerðu okkur námið gjöfult og lögðu þannig grundvöll að lífsins göngu. Við þurfum að tryggja æskunni sams konar tækifæri og í þeim efnum kemur margt til greina.
 – Ólafur Ragnar Grímsson í nýársávarpi 1. janúar 2005.

H

Í orði vantar nú ekki stuðninginn við kennara.

ér talar alvörumaður, ekki hefðbundinn stjórnmálamaður frasanna. Maður sem segir það sem hann meinar og meinar það sem hann segir. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og fyrrverandi fjármálaráðherra og formaður Alþýðubandalagsins. Hann hefur alltaf viljað efla skólana. En hann veit og leggur á það mikla áherslu, að það „dugir þó skammt að mæla fagurt um gildi menntunar í hátíðaræðum; við verðum að sýna í verki að þjóðin hafi einbeittan vilja í þessum efnum.“ Og hann veit líka, og leggur ekki síður áherslu á það, að „forsendan verður þó ætíð sú að kennurum sé sómi sýndur, að kennsla sé metin að verðleikum og kennarastarfið sé keppikefli, að ánægja og stolt ríki innan stéttarinnar.“ Þannig er það nú.

Því miður er það svo að forseti Íslands hefur engin völd. Honum ber, samkvæmt stjórnarskránni, að láta ráðherra framkvæma allt sitt vald og hefur ekkert persónulega sjálfur. Því miður, því þá hefur hann ekki tækifæri til að sýna raunverulegan hug sinn til skólamála og kennurum þann sóma sem hann vill. En sem betur fer þá hefur hann haft færi á því, og þá dró hann nú ekki af sér blessaður maðurinn. Að vísu var það svo, að í fjármálaráðherratíð Ólafs Ragnars þá rýrnaði kaupmáttur kennara, sem er í mikilli andstöðu við þá verulegu kaupmáttaraukningu sem fólk hefur notið undanfarinn áratug og er einstæð á Vesturlöndum. En hvað um það, hann fékk færi á að bæta kjör kennara og sýna þeim þann sóma sem hann kallaði eftir í nýársávarpi sínu. Hann gerði einmitt sem fjármálaráðherra kjarasamning við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, og lýsti samningagerðinni sem mikilli lýðræðislegri og félagslegri upplifun, og þar sem hann er nú ekki maður stóryrða og frasa þá er ljóst að þetta hafa verið miklar og góðar viðræður og kennurum mikill sómi sýndur.

Á borði eru hins vegar sett bráðabirgðalög og allur stuðningur afturkallaður.

Nokkur vonbrigði hafa það því orðið hjá kennurum og öðrum háskólamenntuðum mönnum þegar ríkisstjórnin ákvað svo að standa ekki við þann kjarasamning sem hún hafði gert við háskólamenntaða starfsmenn sína. Þegar koma átti að því að háskólamenn fengju notið afraksturs hinna lýðræðislegu og félagslegu upplifunarsamninga við Ólaf Ragnar Grímsson og félaga, þá afnam ríkisstjórn Alþýðubandalagsins, Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins einfaldlega þann ávinning með bráðabirgðalögum. Það er nú þannig sem þessir ágætu menn eru í raun þegar kemur að því að bæta kjör borgaranna. Það vantar ekki hátíðarræðurnar um sóma við kennara og stuðning við skólakerfið. En þegar á að borga út eftir kjarasamningum sem þeir hafa sjálfir gert, þá eru bara sett lög og sagt „allt í plati“. Rétt eins og í öðrum málum. Fyrir kosningar, þá er lofað skattalækkunum. Eftir kosningar eru skattalækkanir stjórnarinnar ekki studdar. Fyrir borgarstjórnarkosningar er lofað að hækka hvorki skatta né þjónustugjöld. Eftir borgarstjórnarkosningar er hvort tveggja hækkað. Og svo framvegis og svo framvegis.