Ef jólamyndir kvikmyndahúsanna verða ekki þeim mun betri fer þessu ári að ljúka sem einu því slakasta í sögu kvikmyndagerðarinnar. Það kastaði þó fyrst tólfunum nú í desember þegar kvikmyndahúsin tóku til sýningar afrakstur þess að Steven Soderbergh bætti Catherine Zeta-Jones við Ocean’s Eleven og úr varð einhver bjánalegasta kvikmynd síðari ára. Þessari fordæmingu á kvikmyndaiðnaðinum slengir Vefþjóðviljinn fram með þeim fyrirvara að hann hefur ekki enn séð Seed of Chucky.
Já Vefþjóðviljinn er kominn í jólaskapið, hátíð í bæ.
En hvað er hann að fara með þessu rausi um niðurlægingu Soderberghs og annarra kvikmyndagerðarmanna? Jú þeim sem hallast að frjálshyggju og vilja takmarka umsvif ríkisins sem mest er stundum gott að klípa sig aðeins. Það sem markaðurinn býr til er ekki endilega alltaf við allra hæfi. Frjáls markaður er ekki fullkomin trygging fyrir því að allir fái allt sem þeir vilja. Vefþjóðviljinn hefur svo sem aldrei haldið því fram.
En markaðurinn, frjáls viðskipti og skýr einkaeignarréttur, er hins vegar líklegastur til að gera fleiri ánægða en nokkur önnur skipan mála. Hann er líklegri en miðstýrðar ákvarðanir stjórnvalda til að gera mörgum ólíkum einstaklingum til hæfis. Þekkingin á því hvað skortir helst í þjóðfélaginu berst seint og kannski alls ekki til stjórnmálamanna og embættismanna. Þessi þekking er dreifð út á meðal einstaklinganna og það er útilokað að safna henni saman á kontóra ríkisins. Þess vegna fer best á því að einstaklingarnir, sem búa yfir þessari þekkingu, taki ákvörðun um hvað er framleitt og hvað ekki.
Um þetta má deila segir sjálfsagt einhver.
Ef þetta atriði er umdeilanlegt, það er að segja að frjáls markaður skili mestum árangri fyrir einstaklingana, er til annað atriði sem gerir frjálsan markað eftirsóknarverðan og nauðsynlegan í frjálsu samfélagi Á frjálsum markaði hafa allir menn tækifæri til að láta reyna á hæfileika sína. Hvort sem það er til að gera kvikmyndir, framleiða herðatré eða reka líknarfélag. Það þarf veigamiklar ástæður til að taka þetta tækifæri af mönnum. Vefþjóðviljinn efast um að þær séu til.
Vefþjóðviljinn óskar lesendum öllum gleðilegra jóla.
Kristur læknar blinda manninn. Altaristafla Þingvallakirkju í Árnesprófastdæmi. Mynd tekin úr fjórða bindi Kirkna Íslands, ritraðar Þjóðminjasafns Íslands, Húsafriðunarnefndar og biskupsstofu. |