Fimmtudagur 9. desember 2004

344. tbl. 8. árg.

Ífyrradag fjallaði leiðari DV um fremur nýlegan hæstaréttardóm í máli er snerti vitnavernd og réttindi sakborninga. DV var alls ekki ánægt með dóminn, sagði að hann væri „fáránlegur og stofnar réttaröryggi í landinu í hættu“, og svo framvegis. Allt í lagi með það, þetta er bara skoðun blaðsins, eða í það minnsta þess ritstjóra sem skrifar undir leiðarann. En svo kemur það merkilega. Leiðarinn er myndskreyttur. Honum fylgir stór andlitsmynd af Ólafi Berki Þorvaldssyni hæstaréttardómara. Nú er það vitaskuld mjög fátítt að slíkar myndskreytingar fylgi fréttum eða umræðum um dóma, en auðvitað er ekkert að því að það sé tekið skýrt fram hvaða dómari kveður upp hvern og einn dóm; dómarar hljóta að geta kannast við þau verk sín. En þegar menn fletta upp dómi hæstaréttar, til að skoða hann í ljósi leiðarans, þá kemur hins vegar dálítið í ljós. Ólafur Börkur Þorvaldsson kemur þessu máli ekkert við. Hann kom ekki nálægt málinu. Það voru þrír hæstaréttardómarar sem sátu og dæmdu í málinu, en enginn af þeim er Ólafur Börkur. DV verður bálreitt yfir dóminum, skrifar harðan leiðara og birtir með honum stóra andlitsmynd af… Ólafi Berki Þorvaldssyni.

En þeir sem ekki hafa fyrir því að fletta dóminum upp, hvað ætli þeir haldi? Ætli þeir eigi annan kost en að álíta að þessi Ólafur Börkur hafi verið aðalmaðurinn í þessum „fáránlega“ dómi sem „stofnar réttaröryggi í landinu í hættu“? Og var það ekki skipun þessa Ólafs sem var svo umdeild í fyrra? Jú var það ekki þessi Björn sem skipaði hann? Já einmitt, þessi Björn sem stofnaði herinn og er á móti konum og mannréttindum? Já var það ekki, svona eru þessir kallar einmitt, þarna er þeim rétt lýst.

Og jafnvel þeir sem lítið setja sig inn í málið, renna bara augum létt yfir leiðarann. Ætli það standi samt ekki eftir orð eins og „fáránlegur“ og „stofnar réttaröryggi í landinu í hættu“, og svo myndin af Ólafi Berki?

Auðvitað getur þetta verið tilviljun, bara mistök. Allt í lagi, mistök verða. En á ákveðnum fjölmiðlum þá er eins og þau verði öll í aðra áttina. Mishermi og rangfærslur, sem allir geta auðvitað lent í, eru svo merkilega oft til þess fallin að gefa ákveðna mynd af íslenskum þjóðmálum, að það eru takmörk fyrir því hversu lengi er hægt að trúa því að um tilviljun sé að ræða. Og af endalausum svona atriðum draga margir ályktanir sínar um rétt og rangt í íslenskum þjóðmálum. En jú jú, þetta geta verið leiðinda mistök, best að útiloka það ekki.