Ítilkynningu forsætis- og fjármálaráðherra á dögunum um fyrirhugaða lækkun á tekjuskatti, afnám eignarskatts og hækkun á barnabótum sagði í fyrirsögn að um væri að ræða „stórfellda hækkun barnabóta“. Eins og frægt er orðið klúðraði fjármálaráðherra kynningu á þessum mestu skattalækkunum síðustu áratuga. Þegar stjórnarandstaðan hafði í heila viku haldið uppi látlausum áróðri gegn skattalækkununum boðaði ráðherrann loks til fundar til að kynna málið betur – fyrir flokksmönnum sínum.
Það er í stíl við annað í tilkynningu forsætis- og fjármálaráðherra að ekkert kemur fram í henni hvað „stórfelld hækkun barnabóta“ þýðir fyrir ríkissjóð. Barnabæturnar hækkuðu úr 4.756 milljónum króna í 5.357 milli áranna 2002 og 2003 samkvæmt ríkisreikningi. Þessi hækkun var vafalaust kölluðu niðurskurður af stjórnarandstæðingum. Ef að hækkun barnabóta um 600 milljónir króna er niðurskurður hvað þýðir þá „stórfelld hækkun“? Það er rannsóknarefni hvernig mönnum í fjármálaráðuneytinu dettur í hug að senda út tilkynningu um „stórfellda“ aukningu ríkisútgjalda án þess að það komi fram hvað hún þýðir? Síðar kom í ljós í fréttum að „stórfelld hækkun“ er hækkun upp á 2.400 milljónir króna eða um 45%. Þetta er því aukning ríkisútgjalda um nær 1% sem er auðvitað mjög mikið vegna eins málaflokks. Það er því ekki fjarri lagi að um sé að ræða „stórfellda hækkun barnabóta“.
Það er gagnrýnivert að í kynningu á þessum aðgerðum skuli bæði skattalækkanir og hækkun barnabóta sett undir einn lið þegar kostnaðurinn er metinn. Bæði skattalækkanirnar og hækkun barnabóta eru sagðar „kosta ríkissjóð“ 22 milljarða þótt um algerlega ósambærilegar aðgerðir sé að ræða. Skattalækkanir eru liður í að draga úr tekjum en hækkun barnabóta er útgjaldaaukning. Skattar snúa að þeim sem greiða í ríkissjóð en barnabætur að þeim sem fá greitt úr ríkissjóði. Það er afleitt þegar skatta- og bótakerfum er blandað saman á þennan hátt.
Það er svo almennt áhyggjuefni hvernig menn líta orðið á ríkisfjármálin. Eina áhyggjuefnið virðist vera að tekjur og gjöld stemmi nokkurn veginn. Útgjöldin mega aukast og aukast svo fremi sem tekjurnar duga. Skattalækkanirnar eru auðvitað ánægjulegt frávik frá þessari stefnu og munu vonandi draga nægjanlega úr tekjum ríkissjóðs til þess að menn fari að hugsa örlítið um að hefta útgjöldin.