Mánudagur 15. nóvember 2004

320. tbl. 8. árg.

Gaman væri að vita hvernig menn hefðu látið ef hlut þeirra Stefáns Jóns Hafsteins og Steinunnar V. Óskarsdóttur hefði verið skipt. Það er að segja, ef Steinunn hefði sigrað í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og verið í orði kveðnu oddviti“ flokksins í borgarstjórn. Stefán Jón hefði hins vegar farið halloka fyrir henni í kosningum; notið meira fylgis í bakherbergjum en kjörklefum. Svo hefði embætti borgarstjóra losnað og þá það allt í einu gerst að hann hefði verið valinn en ekki hún. Ætli þá hefði ekki verið hrópað úti um allt að konu hefði verið hafnað en karl verið valinn. Að það hefði verið gengið fram hjá konu“. – En núna þegar það er kona sem er tekin fram yfir karlmann sem notið hefur meira fylgis, þá minnist enginn á kynferði þeirra. Núna dettur engum í hug að kynferði skipti máli við úthlutun embætta. Sem vafalaust er rétt mat. Kynferði skiptir nefnilega ekki máli við embættaveitingar, nema þá helst þegar stjórnmálamann langar að slá sér upp með því að skipa konu í starf. Það er ekki í gangi neitt samsæri gegn konum og konum er ekki haldið niðri af því þær eru konur. Það er aldrei þannig að allir nái þeim markmiðum sem þeir stefna að, hvort sem það er í prófkjörum, umsóknum um starf eða samningum um kjör. Konur jafnt sem karlar sem ná ekki því sem að er stefnt, mættu fara að átta sig á því að skýringin á því liggur ekki í kynferði þeirra heldur öðrum atriðum.

R-listinn hefur svikið upphafleg loforð sín um að hækka ekki skatta á borgarbúa á hverju kjörtímabili sínu. 

Og áfram með borgarfulltrúa R-listann og tilkynningar frá þeim. Nú voru þeir að tilkynna að þeir ætluðu að hækka útsvör borgarbúa eins mikið og lög frekast leyfa. Og fasteignagjöldin líka. Það er eins og R-listinn sé hreinlega staðráðinn í því að skattar borgarbúa megi aldrei lækka; R-listinn hefur sérhæft sig í því að stela þeim skattalækkunum sem ríkisstjórnir hafa hugsað sér að færa landsmönnum. Tekjuskattslækkanir ríkisins hverfa allar í útsvarshækkanir R-listans, eins rakið hefur verið, og svo þræta þeir meira að segja fyrir það eftir á að hafa hækkað skatta, eins og rakið hefur verið.

Þegar talað er um nýjustu skattahækkana-ákvarðanir R-listans þá er rétt að halda til haga að í viðtali við nýjasta sunnudagsblað Morgunblaðsins  segir Steinunn V. Óskarsdóttir að hún sé ekki endilega viss um að það hafi verið vitlaust gefið þegar skólarnir komu yfir“. Þannig að ekki er það skýringin á skattahækkuninni. Skýringarinnar er fremur að leita í því að mjög hefur hallað undan fæti Reykjavíkurborgar frá því R-listinn náði þar völdum. Skuldir og skattar hafa aukist, borgarfyrirtæki hafa verið látin standa fyrir fráleitum stórfjárfestingum sem skilað hafa dúndrandi tapi, og þannig mætti áfram telja. Borginni er einfaldlega ákaflega illa stjórnað. Og þegar horft er til þess hvaða flokkar það eru sem stjórna ferðinni í ráðhúsinu, Framsóknarflokkur, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin-grænt framboð, þá kannski skilja menn betur af hverju skattalækkanir eru svo torsóttar á alþingi.

Ísíðustu viku greindi Stöð 2 frá því að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu ekki skilað því fé sem þeir hefðu þegið frá olíufélögunum. Á eftir þeirri frétt komu íþróttafréttir. Þeim lauk með athugasemd: Íþróttafréttir eru í boði Olís“.