Mánudagur 8. nóvember 2004

313. tbl. 8. árg.

Grein Guðmundar Árna Stefánssonar í Morgunblaðinu í gær var nýtt met. Málflutningur Guðmundar Árna er þess eðlis að lesandinn situr bara og gapir. Á einum stað segir hann: „Hvergi skráir sagan þann raunveruleika að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hafi nokkru sinni sagt af sér pólitískum ábyrgðarstörfum. Muna menn t.d. eftir Birni Bjarnasyni, þáverandi menntamálaráðherra, vegna Árna Johnsen málsins…“. Þarna heldur þingmaðurinn því fram, ranglega vitaskuld, að hvergi nokkurs staðar sé að finna dæmi um að sjálfstæðismaður hafi sagt af sér pólitísku ábyrgðarstarfi, og bendir sérstaklega á „Árna Johnsen málið“ því til áherslu. Er manninum sjálfrátt? Í „Árna Johnsen málinu“ þá sagði Árni Johnsen af sér. Árni Johnsen alþingismaður sagði af sér þingmennsku og það gerði hann áður en nokkuð formlegt lá fyrir í máli hans, rannsóknarskýrsla, yfirheyrsla, ákæra eða dómur. Og hann sagði af sér þingmennsku sem var aðgerð sem enginn gat neytt hann til, öfugt við það þegar ráðherra eða embættismaður lætur af störfum. Ódæmdur þingmaður verður ekki neyddur til afsagnar. Mönnum getur fundist hvað sem er um Árna Johnsen, en það er að minnsta kosti staðreynd að hann sagði af sér þingmennsku löngu áður en honum hefði verið skylt að víkja af þingi.

Það er með algerum ólíkindum að þingmaður taki „Árna Johnsen málið“ sem dæmi um að menn segi aldrei af sér. Staðhæfing Guðmundar Árna um að sjálfstæðismenn segi aldrei af sér trúnaðarstöðum, hvergi og aldrei nokkurn tíma, er algerlega fráleit og það eiga allir áhugamenn um stjórnmál, hvað þá alþingismaður, að vita. Og þegar hann í sömu málsgrein nefnir – kenningu sinni til sönnunar – mál þar sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði af sér þingmennsku, þá er fátt að gera annað en gapa. Fréttamönnum tókst vitaskuld ekki að taka eftir þessum furðum þó fjallað væri um grein Guðmundar Árna í öllum fréttatímum, Þórólfi Árnasyni til stuðnings.

Fleira gott er í grein Guðmundar Árna. Á einum stað segir: „Það eru því fullkomin öfugmæli að þessi stjórnmálaflokkur [Sjálfstæðisflokkurinn] gangi í fylkingarbrjósti og krefjist afsagnar Þórólfs Árnasonar.“ – Enginn fréttamaður gerir athugasemd við þessa staðhæfingu Guðmundar Árna Stefánssonar frekar en aðrar. Hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert það? Hafa sjálfstæðismenn ekki einfaldlega sagt að Þórólfur verði að eiga þessi mál við eigin samvisku? Eru þeir eitthvað að fara að Þórólfi með hrópum og spörkum? Hafa þeir ekki einfaldlega látið hann óáreittan?

Þ

að vantar ekki að samkeppnislögin og Samkeppnisstofnun eru hlaðin lofi þessa dagana. Þar virðast þingmenn Samfylkingarinnar fara fremstir í flokki. Vefþjóðviljinn heldur sig þó við að hvoru tveggja er til óþurftar þótt það hafi verið gott að losna við verðlagslögin sem samkeppnislögin leystu af hólmi. Samkeppnislögin voru samþykkt á Alþingi í febrúar 1993 og um leið varð Verðlagsstofnun að Samkeppnisstofnun, verðlagsstjóri ríkisins forstjóri Samkeppnisstofnunar og verðlagsráð varð samkeppnisráð. Stofnun sem hafði eftirlit með því að olíufélögin hefðu alveg örugglega lögbundið samráð var á einni nóttu breytt í stofnun sem hefur eftirlit með því að olíufélögin hafi ekki samráð. Hvað eiga Guðrún Helgadóttir, Hjörleifur Guttormsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhann ÁrsælssonKristinn H. Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson, Páll Pétursson, Steingrímur Hermannsson, Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson sameiginlegt? Þau voru meðal þeirra þingmanna sem studdu ekki að afnema verðlagslögin og setja samkeppnislögin.

Meðal afleiðinga umræðu síðustu daga mun vera stóraukin umsvif við eldsneytissölu Atlantsolíu. Að sögn Ríkisútvarpsins í gær „hefur viðskiptavinum Atlantsolíu í Kópavogi og Hafnarfirði fjölgað stórlega eftir að samráðið komst í hámæli. Metsala hefur verið undanfarna daga og hefur aldrei verið jafn mikið að gera eins og í gær“. Já einmitt, viðskiptavinum Atlantsolíu í Kópavogi og Hafnarfirði fjölgað mikið já? En ekki í Reykjavík? Hvernig ætli standi á því? Ætli skýringin geti nokkuð verið sú að Atlantsolíu gekk erfiðlega að fá lóð hjá borgaryfirvöldum til að hefja samkeppni við hin olíufélögin?