Þ eir eru til sem telja það sérstakt áhyggjuefni að Alþingi starfi ekki allt árið og telja það taka of langt sumarfrí eða óttast þegar hlé er gert á fundum vegna kjördæmaviku eða jólaleyfis. Vefþjóðviljinn deilir sem kunnugt er ekki þessum áhyggjum og gerir ráð fyrir að þeir sem þær hafa hafi ekki kynnt sér rækilega þau mál sem til umræðu eru á Alþingi og hvernig þingmenn verja tíma sínum þar. Þingmenn – ekki allir en býsna margir – verja tíma sínum helst til þess að reyna að pota fram málum fyrir tiltekna sérhagsmunahópa, líklega í því skyni að afla sér stuðnings þessara hópa. Margir aðrir þingmenn eru ekki aðeins uppteknir af einstökum sérhagsmunum, en verja tíma sínum þess í stað í að verða almennt til ógagns. Þetta er sjálfsagt ekki ætlunin, en þeir sem til dæmis berjast í sífellu gegn skattalækkunum eða sölu ríkisfyrirtækja gera ógagn hvort sem þeir ætla sér það eða ekki.
Það má gjarnan sjá af fyrirspurnum óbreyttra þingmanna hvort störf þeirra eru gagnleg eða ekki. Og oftar en ekki eru fyrirspurnir til ógagns. Sem dæmi má taka, nánast af handahófi, þrjár fyrirspurnir þingmanna sem nú bíða svars ráðherra á Alþingi. Ein er frá Sigurlín Margréti Sigurðardóttur sem spyr að því hvað líði lögverndun á starfsheiti táknmálstúlka. Fyrirspurnin hljómar sakleysislega, en er aðeins enn einn liðurinn í baráttunni fyrir auknum afskiptum hins opinbera af borgurum landsins. Hvaða tilgangi ætli það þjóni helst að „lögvernda starfsheiti“ þeirra sem túlka á og af táknmáli? Líklega sama tilgangi og önnur lögverndun starfsheita, að vernda tiltekna stétt manna fyrir óþægilegri samkeppni. Önnur spurning sem hér skal nefnd er frá Jóhönnu Sigurðardóttur, sem spyr hvort viðskiptaráðherra sé reiðubúinn til að beita sér fyrir lagabreytingum um tiltekið lágmarkshlutfall af hvoru kyni í stjórnum hlutafélaga. Vilji þingmannsins er greinilega sá að Alþingi taki að sér að ákveða hvernig stjórnir einkafyrirtækja skuli skipaðar, eða að minnsta kosti hvernig þær skuli ekki skipaðar. Eigandi fyrirtækis mætti samkvæmt þessu ekki skipa þá eða þær í stjórn fyrirtækisins sem hann teldi koma því best heldur yrði hann að skipa einhverja allt aðra eða aðrar ef kynjasamsetningin væri „röng“. Fyrirtækið væri verr rekið en ella, en Jóhanna Sigurðardóttir myndi gleðjast því að í stjórninni væri hæfileg blanda að hennar mati.
Þriðja spurningin sem hér skal nefnd er líklega öllu gagnlegri en þær fyrrnefndu og kemur hún frá Sigurði Kára Kristjánssyni. Hann spyr heilbrigðis- og tryggingamálaráherra um ástæður fjölgunar öryrkja um 50% á árunum 1998-2004 og fleira þessu tengt. Fjölgun öryrkja er í besta falli afar undarleg og ólíklegt er að hún endurspegli verri heilsu landsmanna. Fjölgunin er líklega til marks um að auðveldara sé en áður að fá viðurkenningu hins opinbera fyrir því að vera öryrki. Ólíklegt er að þetta komi þeim vel sem raunverulega þurfa á örorkubótum að halda, því að takmarkaðir fjármunir valda því óhjákvæmilega að fjölgun öryrkja veldur því að hver fær minna í sinn hlut. Að auki er vitaskuld farið dýpra í vasa skattgreiðenda en telja má réttlætanlegt ef einhverjir geta fengið örorkubætur án þess að þurfa í rauninni á því að halda.
ÞÞ að vakti athygli þegar Ólafur Ragnar Grímsson bauð sig fram til embættis forseta Íslands árið 1996 að hann talaði alltaf um keppinauta sína um embættið sem „meðframbjóðendur“ en ekki „mótframbjóðendur“. Mörgum kom þetta á óvart á sínum tíma en þeir áttuðu sig ekki á að Þórólfur Árnason, þáverandi markaðsstjóri, var í kosningastjórn Ólafs Ragnars.