E mbætti Ríkissáttasemjara fær 54 milljónir króna í ár og áformað er að það fái ríflega þá upphæð á næsta ári ef marka má frumvarp til fjárlaga næsta árs. Þetta eru talsverðar fjárhæðir og ef litið er til yfirstandandi verkfalls hljóta menn að spyrja sig hvort að fjármununum er vel varið eða hvort að ef til vill mætti spara þessi útgjöld og láta deilendur um það sjálfa að boða til funda og ræða saman. Aðstoð sérstaks samningamanns ríkisins við kjarasamningagerð er undarleg ráðstöfun, ekki síst þegar í hlut eiga deilendur sem koma ríkinu lítið eða ekkert við, svo sem sveitarfélög, kennarar, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands eða aðrir álíka. Auðvitað verður að viðurkenna að Ásmundur Stefánsson tekur sig ágætlega út í Lazy-Boy stólnum á rúmgóðri skrifstofu sinni og vafalítið hafa deilendur gaman af að hitta hann og þiggja þó ekki væri nema ráðleggingar um kolvetnarýrt mataræði um leið og þeir kjamsa á kökum og kleinum með kaffinu. Engu að síður verður að telja það vafasama ráðstöfun að ríkið útvegi slíka aðstöðu á kostnað skattgreiðenda og deilendur ættu sjálfir að bera kostnaðinn af samningunum.
Ekki dettur nokkrum í hug að ríkið útvegi þeim sem vilja eiga viðskipti með fasteign sérstakan samningamann til að auðvelda þeim að ná saman um verð. Og varla vill nokkur maður að þeir sem stunda bílaviðskipti geti farið með mál sín fyrir sérstakan bílasamningamann ríkisins sem leggist í Lazy-Boy stólinn sinn og reyni árangurslítið að hjálpa þeim að finna verð og greiðslukjör sem báðir geta sætt sig við. Nei, líklega dytti ekki nokkrum manni í hug að fara fram á að slíkt embætti yrði stofnað. Ja, menn skyldu svo sem aldrei segja aldrei þegar kemur að nýjum kröfum um ríkisafskipti og útþenslu hins opinbera. Ástæðulaust er að gleyma því að þeir eru til – og sumir þeirra sitja meira að segja á Alþingi Íslendinga – sem telja eðlilegt að stofnað verði embætti Umboðsmanns neytenda. Nú geta auðvitað einhverjir sagt sem svo að fyrst til er embætti Umboðsmanns hestsins þá sé ekki svo fjarstæðukennt að krefjast embættis Umboðsmanns neytenda. Þá má hins vegar svara því til að ef ævinlega á að verja eina vitleysuna með annarri þá er ekki von á góðu.