Kjöt og ætir hlutar af dýrum. Mjólk og rjómi. Þarmar, blöðrur og magar úr dýrum (þó ekki úr fiski), heilt og í stykkjum. Dýrablóð. Svína- og alifuglafeiti. Fita af dýrum af nautgripaætt, kindum eða geitum. Svínafeitisterín, svínaolía, tólgarsterín, oleóolía og tólgarolía. Feiti eða olíur, hertar. Smjörlíki og blöndur eða framleiðsla til manneldis úr jurtafeiti eða olíum. Sykur (þó ekki skrautsykur). Kakaóvörur, svo sem kakaóbaunir, kakaódeig og kakaósmjör (þó ekki kakaóduft). Búðingsduft, búðingar og súpur sem innihalda kakaó. Tvíbökur, ristað brauð og áþekkar ristaðar vörur. Brauð. Saltkex og kryddkex. Kökur og konditorstykki. Bökur, þ.m.t. pítsur (pizza). Nasl (snack). |
– Nokkur dæmi um „matinn“ sem Samfylkingin hefur lagt fram frumvarp um að lækka virðisaukaskattinn á úr 14% í 7%. |
V
Það er gott fyrir alla þegna landsins að skola pítsu með blöðrum, tólg og extraþörmum niður með dýrablóði. Það kemur sér þó langbest fyrir þá sem hafa úr litlu að spila. Samfylkingin hefur lagt fram frumvarp um málið. |
efþjóðviljinn minntist á það fyrir nokkru að það væri einkennilegt að á sama tíma forvarnariðnaðurinn eins og hann leggur sig varar menn við að eta of mikið vilja flestir stjórnmálaflokkar að ýmislegt matarkyns njóti sérstaks skattaafsláttar umfram aðrar vörur. Þessi matvæli bera nú þegar mun lægri virðisaukaskatt en flestar aðrar vörur eða 14% á meðan almennur virðisaukaskattur er 24,5%. Nú vilja stjórnmálamenn auka enn á þessa mismunun og hygla ofátinu. Sömu stjórnmálamenn hafa hingað til fremur viljað skattleggja það aukreitis sem hinn almenni maður getur farið sér að voða við að innbyrða. Það hafa þeir einnig sýnt í verki eins og skattar á áfengi og tóbak bera með sér. Í sömu andrá og sjálf Lýðheilsustöð ríkisins segir „offitufaraldur“ herja á Vesturlandabúa vegna ofáts vilja stjórnmálaflokkarnir auðvelda mönnum ofátið með skattaívilnun. Öðruvísi mönnum áður brá.
Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur til dæmis þegar lagt fram sérstakt frumvarp um að lækka virðisaukaskatt á útvöldum matarbitum úr 14% í 7%. Við jafnaðarmenn viljum „lækka matarskattinn“ segir formaður flokksins hróðugur þessa dagana en verður ekki alveg jafn rogginn þegar honum er bent á að einn af gömlu flokkunum hans lagði „matarskattinn“ á. En þegar listinn yfir þessa bita sem eiga að njóta sérlegra skattfríðinda er skoðaður er tvennt áberandi.
Annars vegar vekur athygli að íslenskar landbúnaðarafurðir munu allar fá þennan skattaafslátt. Það má auðvitað segja að til að fullkomna íslenska landbúnaðarkerfið hafi þurft skattaafslátt. Höftin, framleiðslustýringin, skömmtunarkerfið, niðurgreiðslurnar og ríkisstyrkirnir eru þegar til staðar og sömuleiðis tollarnir, vörugjöldin og aðrar innflutningshindranir. Það sjá allir að vörur sem framleiddar eru við slíkar aðstæður hljóta ofaní kaupið að njóta skattfríðinda. Jafnvel þarmar, magar og blöðrur, hvort sem er í heilu eða stykkjum, munu njóta sérstakra og aukinna skattfríðinda nái frumvarp Samfylkingarinnar um lækkun matarskattsins fram að ganga. Og það er vissara að taka það fram í frumvarpinu að hér er átt við þarma og maga úr dýrum. Plöntuþarmar og -magar verða þá líklega áfram í hærra skattþrepi. Nú og svo eru það nauðþurftir eins og dýrablóðið. Samfylkingin rökstyður feikivel hvers vegna skatturinn á blóðinu á að lækka úr 14% í 7%. „Slík skattalækkun kemur öllum þegnum landsins vel. Hún kemur þeim hins vegar langbest sem hafa úr minnstu að spila og fjölskyldufólki“, segir í greinargerð með frumvarpinu. Þeim sem hafa úr litlu að spila finnst gott að fá blóðslettu, alveg langbest. Að ógleymdu fjölskyldufólkinu sem er alræmt fyrir blóðþorsta.
Hitt sem vekur athygli þegar matseðill Samfylkingarinnar er skoðaður er að stór hluti af honum er það sem einhver umbótamaðurinn á manneldissviðinu myndi sennilega kalla feitmeti, kransæðakítti og gott ef ekki ruslfæði.
Það versta við frumvarpið er þó að Samfylkingin vill aðeins lækka matarskattinn á „kjöt og æta hluta af dýrum“. Áfram verður því dýrt að kaupa óætið. Hvers eiga Þorrablótin að gjalda?