Miðvikudagur 20. október 2004

294. tbl. 8. árg.
Auðvitað er enginn hlutlaus. Hvorki á sunnudögum á Skjá einum né á virkum dögum í Ríkisútvarpinu.

Síðdegis mun Guðmundur Steingrímsson blaðamaður flytja hlustendum Ríkisútvarpsins pistil, eins og hann hefur gert um langt skeið. Guðmundur mun segja skoðun sína á einhverju því máli sem hátt ber, og sjálfsagt mun sitt sýnast hverjum um þá skoðun, hver sem hún verður. Fyrir gagnstæðum viðhorfum mun því næst tala… enginn. Næstkomandi sunnudag mun Guðmundur koma að hinum nýja umræðuþætti Skjás eins, Sunnudagsþættinum, þar sem hann er sérstaklega fenginn sem frambærilegur fulltrúi viðhorfa úr tiltekinni átt umræðunnar, ef svo mætti segja. Aðrir stjórnendur þess þáttar eru svo varaformaður vinstri grænna, frjálslyndur blaðamaður og aðstoðarmaður utanríkisráðherra.

Sunnudagsþáttur Skjás eins lofar nokkuð góðu, sérstaklega ef haft er í huga að stjórnendur eiga vafalaust eftir að slípast. Sérstaklega er ánægjulegt að bæði stöðin og stjórnendurnir kannist við það sem blasir við, að „það er enginn hlutlaus“. Það er hins vegar staðreynd sem til dæmis Ríkisútvarpið virðist seint ætla að viðurkenna. Þar á bæ virðast menn halda, að hlustendur trúi því að hver vinstri maðurinn eftir annan verði skyndilega hlutlaus við það ganga inn í útvarpshúsið. Að minnsta kosti sér Ríkisútvarpið aldrei neitt óeðlilegt við að afhenda vinstri mönnum einum hljóðver sín til ræðuhalda. Kannski af því að þannig hefur það alltaf verið! Það er eiginlega stórfurðulegt hvernig staðið er að pistlamálum í Ríkisútvarpinu. Furðulegt hversu lengi starfsmenn þar telja sér fært að standa að því að vinstrisinnar komi vikulega og haldi einræður um þjóðmál – og enginn fái að tala fyrir öðrum viðhorfum.

Vitaskuld er ekki verið að gagnrýna Guðmund Steingrímsson þó að bent sé á þetta. Að vísu hefur Vefþjóðviljinn ekki séð starfslýsingu hans, en að því gefnu að þar séu ekki sett einhver skilyrði sem hann svo brýtur dag eftir dag, þá er ekki hægt að áfellast hann fyrir að tala einfaldlega fyrir sínum viðhorfum. Ekki er hægt að búast við því að hann tali fyrir einhverjum allt öðrum viðhorfum en hann sjálfur hefur, eða þá því að hann skipti um skoðun í miðjum pistli og fari í hlutleysisnafni að tala gegn því sem hann áður hafði sagt. Og Vefþjóðviljanum finnst Guðmundur frambærilegur pistlahöfundur fyrir sinn hatt og raunar vel til fundið af Skjá einum að hafa hann einn stjórnenda Sunnudagsþáttanna; en það er ekki það sem blaðið er að vekja athygli á. Það eru hinir einlitu pistlahöfundar Ríkisútvarpsins, ár eftir ár, sem eru að verða þreytandi staðreynd. Ríkisútvarpið hefur hlutleysisskyldu sem aðrir fjölmiðlar hafa ekki. Rekstrarfé Ríkisútvarpsins er tekið með valdi af hinum almenna manni með skylduáskrift og því má gera þá kröfu til stofnunarinnar að hún reyni að gæta jafnræðis milli andstæðra sjónarmiða. Einkafjölmiðill mætti hins vegar alveg vera með hvern vinstrimanninn á eftir öðrum sem fastan höfund; Dag B. Eggertsson, Guðmund Andra Thorsson, Ólaf Hannibalsson, Valgerði Bjarnadóttur og svo framvegis – fólk sem aðallega myndi skrifa til þess að vera á móti Sjálfstæðisflokknum – en það á bara enginn hlutleysiskröfu á hendur einkafjölmiðlum. Ríkisútvarpinu er einfaldlega ekki stætt á því að bjóða látlaust upp á einlitar þjóðmálaumræður, þó hefðbundnir einkafjölmiðlar geti gert það sem þeim sýnist. Guðmundur Steingrímsson er ágætis talsmaður viðhorfa Guðmundar Steingrímssonar og ekkert að því að hann kynni þau, hvort sem er í Ríkisútvarpinu eða annars staðar. Það er skorturinn á talsmönnum gagnstæðra viðhorfa sem er sláandi í Ríkisútvarpinu.