Föstudagur 15. október 2004

289. tbl. 8. árg.
Íslendingar fara greinilega ekki varhluta af offitufaraldrinum sem herjar á hinn vestræna heim. Nýlega er lokið viðamikilli úttekt á holdafari barna og fullorðinna hér á landi og sýna niðurstöður að ofþyngd og offita eru vaxandi vandamál hjá báðum hópum. Helsta skýring á þessu er sú að ekki hefur verið dregið úr orkuneyslu til samræmis við minnkaða orkuþörf sem fylgir minni líkamlegri áreynslu nútíma lifnaðarhátta. Offita er áhættuþáttur fyrir ýmsa sjúkdóma svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki (fullorðins) og ýmsar tegundir krabbameina. Einnig getur hún leitt til ýmissra sálrænna og félagslegra vandamála.
 – Fræðsluefni um fæðuval á vef Lýðheilsustöðvar manneldi.is

Það er samdóma álit allra þeirra sem hafa þann starfa hjá ríkinu ráða landslýð heilt að ofát sé eitt helsta vandamál samtímans. Á meðan fyrsta lögmáli varmafræðinnar verður ekki hnekkt þá leiðir ofát til offitu. Hvaða ráð hefur ríkisvaldið – önnur en blátt bann –  jafnan upp í erminni þegar menn ofnota eða misnota hlutina, hvort sem það er áfengi, tóbak eða fjölskyldubíllinn? Hvaða ráð hefur ríkið notað svo oft og svo lengi gegn öllu of og mis í neyslu landsmanna Jú, rétt til getið, skattlagningu.

Því hefur Vefþjóðviljinn beðið þess með ofvæni að ofátið yrði skattlagt. Hugsið ykkur hvað mætti spara í heilbrigðiskerfinu ef sporna mætti gegn misnotkun á mat með skattheimtu, heyrir hann stuðningsmenn skattlagningarinnar segja. Það mætti jafnvel hugsa sér að slá tvær flugur í einnu höggi með því að fræðslustarf Borðstofu ríkisins yrði fjármagnað með þessum tekjustofni. En ýmsar forvarnir eru eins og menn vita afar mikilvægar – ekki síst sem afsökun fyrir nýjum og auknum ríkisútgjöldum.

Á sama tíma og offitufaraldurinn herjar á Íslendinga virðast flestir stjórnmálaflokkar hins vegar hafa markað sér þá stefnu að „lækka matarskattinn“. Það sem átt er við með „lækkun matarskattsins“ er að virðisaukaskattur á tiltekinn mat verði lækkaður í 7% en almennt er virðisaukaskattur á vöru og þjónustu 24,5%. Eins og menn vita þá víkur fólk sér undan því að greiða háa skatta með því að kaupa fremur vörur sem bera lága skatta. Þess vegna er skattheimta svo vinsæl neyslustýring. Verði af  „lækkun matarskattsins“ mun það hvetja menn til að kaupa sér frekar kartöflupoka en bakpoka til gönguferða og fremur kjötbollur til að flippa á steikarpönnunni en körfubolta til að dripla.

Ef að hið sama á við um Íslendinga og Bandaríkjamenn eru þeir efnaminnstu jafnframt feitastir og mega síst við því að eta meira. Þá er hætt við að helstu rökin sem heyrast þessa dagana fyrir lækkun matarskattsins standi í einhverjum á Lýðheilsustöðinni en þau eru að lækkun matarskattsins komi þeim efnaminnstu best.

Úr því matur er kominn hér á borð er erfitt að hætta. Alls kyns kostulegar samsæriskenningar ganga milli bæja þess efnis að Samfylkingin sé stjórnmálaarmur í tilteknu fyrirtæki. Fyrirtæki þetta hefur einkum getið sér gott orð hérlendis fyrir sölu á matvælum. Eins og getið var um hér að ofan mun lækkun matarskattsins vafalítið auka sölu hjá matvörukaupmönnum. Einn stjórnmálaflokkur hefur öðrum fremur beitt sér fyrir lækkun matarskattsins og hefur nú gjörvallur þingflokkur hans lagt fram sérstakt lagafrumvarp þess efnis. Ef Samfylkingin mætti ráða yrði hætt við lækkun tekjuskatts einstaklinga um áramótin og skattur á sölu matvörukaupmanna lækkaður í staðinn.

Kristján Gunnarsson var kjörinn formaður Starfsgreinasambandsins – þvílíkt nafn by the way – í gærkvöldi og sigraði Signýju Jóhannsdóttur í formannskjöri. Björn Snæbjörnsson sigraði Signýju svo í varaformannskjöri. Ætli verkalýðshreyfingin fái frasana um að konum sé ekki treyst, konur þar séu greinilega ekki taldar eins hæfar og karlarnir og svo framvegis? Slíkir frasar koma að minnsta kosti jafnan þegar kona í tilteknum stjórnmálaflokki nær ekki þeim árangri sem hún hefði viljað.