Það er til skammar að fara svona með peninga. Það liggur rúmlega milljarður króna ónotaður, engum til gagns. Eða þannig hefði að minnsta kosti mátt skilja samtal Gunnlaugs Júlíussonar hagfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga og Sigríðar Margrétar Guðmundsdóttur fréttamanns í 10-fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Bæði tönnluðust þau á því að afla mætti rúmlega milljarðs króna, bara ef sveitarfélögin fullnýttu útsvarsprósentu sína. Ekki með því að hækka skatta á borgarana, nei nei það var nú ekki orðað svo, bara með því að fullnýta útsvarsprósentuna. Það var ekki orð um að þetta fé, sem sveitarfélögin gætu auðveldlega aflað, kæmi allt frá þegnum þeirra, sem hefðu þá sem því nemur minna milli handanna til hvers sem þeir kjósa. Sem gæti nú kannski verið vafasamur ávinningur fyrir atvinnulífið í hverju þorpi um sig.
Væntanlega mun fréttastofan fylgja frétt sinni eftir í kvöld með viðtali við seðlabankastjóra eða hagfræðing í fjármálaráðuneytinu um það hversu mikils fjár má afla ef ríkið fullnýtir skattheimtumöguleika sína. Eiginlega þyrfti fréttastofan að láta einhvern öflugan mann reikna fyrir sig hvað megi afla mikils í ríkiskassann með því að breyta landinu í ein allsherjar sovétríki.
Í
Roðinn í vestri? Vinstrigrænum er eðlilega ekki skemmt. Mynd af skagafjordur.is |
Skagafirði deila menn innan meirihlutans nú um virkjun við Villingaholt. Það furðulega er, að enginn hefur mótmælt því að niðurstaða um það mál sé einfaldlega letruð í málefnasamning meirihlutans og sé þess efnis að horfið skuli frá þeim virkjunarhugmyndum. Þegar það er haft í huga, þá er erfitt að hafa mikla samúð með þeim bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem allt í einu eru farnir að vinna að því að það verði bara virkjað; þvert á eigið samkomulag. En þó er ekki að efa að ýmsir munu standa með virkjunarmönnum; að minnsta kosti þeir sem alltaf eru tilbúnir að slá til riddara alla þá sem „fylgja sannfæringu sinni“ og „rísa gegn foringjaræðinu“. Vefþjóðviljinn fyrir sitt leyti lætur sér nægja að spyrja hvað hafi breyst frá því mennirnir gengu til samstarfs við annan flokk, Vinstri-græna, með þetta skýra ákvæði í samstarfssamningnum. Þegar menn eru í meirihlutasamstarfi, verður þá ekki að ræða breytingar á slíkum sáttmála við samstarfsflokkinn – og við það væri auðvitað ekkert að athuga – en ekki láta samstarfsmennina skyndilega eina um að framfylgja samningnum þegar kemur að atkvæðagreiðslu í sveitarstjórn?
ÞÞað tók Björgvin G. Sigurðsson um hálfa mínútu að fá menntamálaráðherra til að lýsa því yfir á alþingi að hún myndi athuga svokallaðan Hávallaskóla sem Haraldur Ólafsson veðurfræðingur byrjaði að eigin sögn að reka þegar hann vildi nýta tímann í fæðingarorlofi. Athuga hvað? Ætlar hún að sækja um skólavist?