F réttamenn tala mikið um verkfall kennara enda má segja að það hafi áhrif á fjölda manns. Í gær fór mikill tími í að ræða um „verkfallsvörslu“ kennara og sveitir þær sem kennaraforystan gerir út til að fylgjast með þeim sem gæta barna hér og þar. Þessar fréttir mega vera tilefni til að leiða hugann að hinum sérkennilegu hugtökum, „verkfallsvörslu“ og ekki síður „verkfallsbroti“ sem fréttamenn telja mikinn glæp. Vefþjóðviljinn er þeirrar skoðunar að þær séu í hæsta máta einkennilegar, þessar sveitir manna sem öðru hverju fara að kalla sig „verkfallsverði“ og telja sig um leið hafa fengið heimild til að taka lög og rétt í eigin hendur. Blaðinu þykir með ólíkindum hvernig fréttamenn geta látið eins og slík tiltæki séu bara sjálfsagður hlutur. Menn eru bara nefndir „verkfallsverðir“, svona eins og það sé eitthvert eðlilegt starf.
Nú má alveg horfa fram hjá ágreiningi um lögmæti þess að vinna í verkfalli eða heimild verkalýðsfélaga til að hindra félagsmenn sína í því að sækja vinnu á sama tíma og félagar þeirra eru að krefjast hærri launa. Jafnvel þó fallist væri á kröfur verkalýðsforystunnar í þeim efnum, þá er langur vegur frá því og yfir í það að samþykkja „verkfallsvörslu“ þessara félaga. Hvað er „verkfallsvarsla“ annað en að einhverjir einstaklingar hafa ákveðið að beita valdi, taka lög og rétt í eigin hendur og knýja sinn skilning á málavöxtum fram? Segjum nú að verkalýðsfélag eigi í raun rétt á því að einhver tiltekin starfsemi fari ekki fram – þarf það að leiða til þess að félagið megi bara fara og knýja þann rétt fram með handafli? Af hverju fer félagið ekki lögformlega leið, krefst til dæmis lögbanns á starfsemina og svo framvegis? Ef rétturinn er fyrir hendi, af hverju þarf þá að beita handafli?
Hvað myndu menn segja ef kennarasambandið teldi einhvern mann úti í bæ skulda sér pening og sendi svo hóp manna með hafnaboltakylfur heim til hans að rukka? Ætli menn segðu ekki bara að menn gætu ekki tekið réttinn í eigin hendur, hér yrði bara að fara í mál og fá manninn dæmdan. Að valdbeitingin væri fremur til marks um það að krafan væri ekki eins örugg og sambandið léti. Jú ætli það gæti ekki verið. Og hið sama má segja um flestar kröfur fólks. Hvort sem það er peningaskuld, krafa um afhendingu hlutar, krafa um að menn geri eitthvað, láti eitthvað ógert eða hvað annað í þá veru, þá er ekki gert ráð fyrir að hver taki bara þann rétt sem hann sjálfur vill. Þeir sem á annað borð telja eðlilegt að til sé hefðbundið ríkisvald, þeir munu flestir vera þeirrar skoðunar að það sé hlutverk þess en ekki hvers sem vill að beita valdi til að ná fram rétti. Nema auðvitað að menn vilji bara taka upp almennt handalögmál. Það væri auðvitað sjónarmið út af fyrir sig.