Okkur líst illa á allar kostnaðarhækkanir. Almennt séð er kostnaður við þessa strætisvagna óheyrilegur, algerlega stjarnfræðilegar tölur. Fyrir utan það að þeir eru yfirleitt tómir á daginn þessir vagnar. |
– Sigurður Geirdal bæjarstjóri í Kópavogi í viðtali við Morgunblaðið um aukinn kostnað við nýtt leiðakerfi strætó, 11. september 2004. |
Þ
Er engin leið frá opinberum rekstri til einkareksturs á strætó? |
að er skiljanlegt að stjórn Strætó bs geri nú örvæntingarfullar tilraunir til að fá íbúa höfuðborgarsvæðisins aftur upp í vagna sína en notkun vagnanna hefur minnkað jafnt og þétt í seinni tíð. Þrátt fyrir að strætisvagnaferðir séu niðurgreiddar um 60% af sveitarfélögunum en fólksbílar skattlagðir meira en nokkuð annað, að brennivíni og tóbaki frátöldu, taka flestir þann kost að nota fólksbíl. Háir skattar á fólksbíla og bensín hafa í byrjun án efa verið hugsaðir sem einhvers konar „lúxusskattur“ á „breiðu bökin“. Slíkir skattar enda yfirleitt með því að vera útilokun á efnaminna fólk frekar en sérstök refsing fyrir auðmenn. Háir skattar á bíla koma verst við þá sem þeirra vegna geta ekki keypt sér bíl og þá sem verða að sætta sig við smábíl fyrir stóra fjölskyldu.
Sem lið í þessum örvæntingarfullu tilraunum til að fá fólk upp í vagnana hefur stjórn Strætó kynnt nýtt leiðakerfi með róttækum breytingum frá því sem nú er. Ef af verður munu vonandi fleiri nýta sér þessa þjónustu því það er miður að þessi þjónusta sé orðin helsta dæmið um sóun í opinberum rekstri. Það er hins vegar auðvitað erfitt að spá fyrir um hvaða áhrif þetta nýja kerfi mun hafa að öðru leyti en því að áhrifin á pyngju skattgreiðenda verða slæm í byrjun. Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður aukist um 170 til 180 milljónir króna á ári. Þessi kostnaður lendir á íbúum sveitarfélaganna sem standa að strætó. Notkun á strætó þarf að aukast um 50% á næstu fimm árum til að þessi aukni kostnaður skili sér í samsvarandi tekjuaukningu. Eins og Sigurður Geirdal bæjarstjóri í Kópavogi bendir á í fyrrnefndu viðtali við Morgunblaðið þá er ekkert sem bendir til að almenningur sé tilbúinn til að breyta ferðavenjum sínum enda sé bílainnflutningur mikill um þessar mundir. Hugmyndir um aukna nýtingu á vögnunum séu því ef til vill ekki raunhæfar. Í sömu frétt Morgunblaðsins var einnig rætt við Jónmund Guðmarsson bæjarstjóra á Seltjarnarnesi og Lúðvík Geirsson bæjarstjóra í Hafnarfirði. Þeir hafa svipuð sjónarmið og Sigurður um hinn aukna kostnað. Jónmundur segir að Seltirningar séu ekki hrifnir af kostnaðarhækkunum sem þessum og Lúðvík segir Hafnarfjarðarbæ geta illa sætt sig við þær.
Sigurður nefnir einnig að á sínum tíma hafi Kópavogsbær náð fram sparnaði með því að bjóða rekstur sinna strætisvagna út. Strætisvagnar Reykjavíkur hf gerðu einnig slíkar tilraunir í byrjun tíunda áratugarins áður en R-listinn komst til valda og gerði fyrirtækið aftur að borgarstofnun og lagði allar áætlanir um betri rekstur á hilluna. Fyrir nokkrum árum rann stofnunin svo inn í Strætó bs en bs mun standa fyrir „byggðasamlag“ sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Það er stórmerkilegt að menn skuli ekki fikra sig áfram eftir þessari leið og leyfa einkaaðilum að spreyta sig á þessum rekstri. Ástandið getur vart versnað úr þessu. Hlemmur – Einkavæðing gæti verið leiðin út úr ógöngunum.