Ífyrradag lét Siv Friðleifsdóttir af ráðherraembætti. Eins og flestir muna var deilt um það hvaða ráðherra Framsóknarflokksins skyldi hverfa úr ríkisstjórn til þess að samfagna Halldóri Ásgrímssyni. Hinir og þessir utan þings gagnrýndu þessa ákvörðun töluvert, svo sem hópur kvenna og fólk úr suðvesturkjördæmi sem taldi hlutfall kvenna eða fólks úr suðvesturkjördæmi rýrna við ráðherraskipti. Það var að vísu sjaldnast útskýrt sérstaklega, sem þó hefði verið forvitnilegt í ljósi þess að eftirmaður Sivjar er, rétt eins og Siv, kona úr suðvesturkjördæmi. En hvað um það, þessi ákvörðun var talsvert gagnrýnd og beindist gagnrýnin fyrst og fremst að Halldóri Ásgrímssyni formanni Framsóknarflokksins. Þær Dagný Jónsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir voru svo gagnrýndar fyrir að gagnrýna ekki Halldór.
Þó auðvitað megi deila um þessa ákvörðun eins og margar aðrar, þá væri skemmtilegt að velta fyrir sér hvort gagnrýninni er beint að réttum aðila. Af hverju eru menn að gagnrýna Halldór Ásgrímsson fyrir ákvörðun sem allt annar maður tók? Af hverju gagnrýnir fólk ekki þann sem tók þessa ákvörðun, Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands. Hann er hinn seki. Honum ber hrós eða skömm fyrir þessa ákvörðun sína.
Er Vefþjóðviljinn búinn að missa vitið? Já hann væri búinn að því ef hann meinti þetta þrugl. En þetta þrugl væri alls ekki verra en það sem fjölmiðlamenn kepptust í sumar við að hafa eftir mönnum sem allir sem einn voru kallaðir helsti lögspekingur þjóðarinnar. Í sumar voru slíkir menn alveg á fullu að láta eins og þeir teldu í raun að þegar stjórnarskrá lýðveldisins segði að „forseti“ gerði eitt eða annað, þá væri valdið til þess í raun og veru í höndum forsetans en ekki ráðherrans sem skrifar undir með honum. Í 15. grein stjórnarskrárinnar segir nú, svo skemmtilegt dæmi sé tekið: „Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“ Hverjum dettur nú í hug að það sé Ólafur Ragnar Grímsson sem skipti störfum með ráðherrum. Að hann hafi setið á Bessastöðum og hugsað með sér „hm, ætli það gæti ekki verið dýrmætt að setja Sturlu í samgöngumálin. Já og þessi Valgerður, ætli ég geri hana ekki að viðskiptaráðherra hm“?
Nei auðvitað dettur engum vitibornum manni í hug að það sé forsetinn persónulega sem fari með þetta vald. Ekki fremur en vitibornum manni dettur í hug að forsetinn gæti til dæmis neitað að rjúfa þing, leggja fram frumvarp eða gefa út bráðabirgðalög og svo framvegis. Eða svo það sé orðað öðruvísi: þeir sem láta sér koma til hugar að forsetinn fari persónulega með það vald sem stjórnarskráin segir að „forsetinn“ geri, þeir ættu að spyrja Ólaf Ragnar Grímsson af hverju hann hafi ákveðið að Siv léti af ráðherraembætti en ekki einhver annar.
Og að lokum: „Undirritaður getur frætt Davíð Oddsson á því, að enginn, sem þekkir hið minnsta til hans, lætur sér til hugar koma að hann muni sitja eina mínútu, hvað þá lengur, í ríkisstjórn undir annars forsæti.“ – Sverrir Hermannsson í grein í Morgunblaðinu 24. maí 2003. Merkilegt með alla þessa menn sem þekkja til. Þeir hafa alltaf rangt fyrir sér.