Í
14-2. Alltaf má deila um hvernig skal meta árangur og á hvað skal horft. Í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar, sem út kom í gær, eru ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar metnar eftir tuttugu atriðum, svo sem kaupmætti ráðstöfunartekna, hagvexti, stöðugleika, skuldum ríkissjóðs, skuldum heimilanna, lækkun skatta, frjálsu fjármagnsflæði, almennri atvinnu og lágum raunvöxtum. Niðurstaðan er sú að af tuttugu atriðum fá stjórnirnar fjórtán plúsa, tvo mínusa og um fjögur atriði segir tímaritið að niðurstaðan sé hvorki né. |
dag verða talsverðar breytingar á vettvangi stjórnmálanna þegar Davíð Oddsson lætur – um hríð að minnsta kosti – af embætti forsætisráðherra eftir að hafa gegnt því embætti lengur en nokkur annar. Í umræðum um forsætisráðherratíð Davíðs er mikið gert úr þessu lengdarmeti, en það er auðvitað ekki tímalengdin sem máli skiptir heldur það hvort að vel eða illa hafi tekist til. Til að fjalla um þau 13 ár sem liðin eru frá því að Davíð tók við embætti eru ýmsir kallaðir til í fjölmiðlum og sumir eiga augljóslega að gegna hlutverki fræðimanna og eru aðeins kynntir til sögunnar sem stjórnmálafræðingar. Stundum vill brenna við að þeir sem kynntir eru með þessum hætti í fjölmiðlum eru ekki aðeins stjórnmálafræðingar heldur einnig eitthvað annað sem ef til vill hefur ekki síður áhrif á afstöðu þeirra til stjórnmálanna. Rætt var við einn þessara manna í Ríkisútvarpinu gærmorgun. Þetta er Birgir Hermannsson sem var kynntur til sögunnar sem stjórnmálafræðingur en hlustendum til glöggvunar hefði að ósekju mátt nefna að hann var aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar þegar sá gegndi embætti umhverfisráðherra fyrir áratug. Það ætti vitaskuld ekki að útiloka Birgi frá opinberri umræðu en óneitanlega væri gott fyrir hlustendur að vita að þar fer ekki aðeins „hlutlaus“ fræðimaður.
Birgir Hermannsson taldi, eins og margir félagar hans af vinstri væng stjórnmálanna, að Davíð Oddsson hefði setið of lengi í embætti forsætisráðherra og þarf út af fyrir sig ekki að undra að vinstri menn séu þeirrar skoðunar. Á honum mátti raunar einnig skilja að Davíð hefði litlu áorkað á þessum árum og fátt gert annað en að halda í horfinu og fylgja straumnum. Þá þótti Birgi „ekki alveg eðlilegt“ að Davíð færi úr forsætisráðherrastólnum í utanríkisráðherrastólinn og ennfremur væri erfitt fyrir alla að hann skuli ekki segja hvenær hann ætlar að hætta í stjórnmálum. Rétt eins og það að hafa verið forsætisráðherra geri menn síður hæfa til að gegna embætti utanríkisráðherra eða að almennt sé gerð krafa til stjórnmálamanna að þeir lýsi því yfir með löngum fyrirvara hvenær þeir hyggist láta af stjórnmálastörfum. Eða að nokkur einasti stjórnmálamaður hafi verið krafinn slíks, af Birgi Hermannssyni eða öðrum. Málflutningurinn var býsna sérstakur fyrir mann sem aðeins er kynntur til sögunnar sem stjórnmálafræðingur, en verður skiljanlegur þegar haft er í huga að þar var á ferð pólitískur andstæðingur Davíðs Oddssonar. Hlustendur hefðu líklega áttað sig betur á því sem frá Birgi kom hefðu þeir vitað hvar hann stendur í stjórnmálum, ekki aðeins að hann hefur próf í stjórnmálafræði.
Um þau ár sem liðin eru frá því að Davíð Oddsson settist í stól forsætisráðherra er í stuttu máli það að segja að þau hafa að flestu leyti verið afar hagstæð almenningi á Íslandi. Vissulega er það ekki allt Davíð einum að þakka, en þó hljóta jafnvel andstæðingar hans að viðurkenna – að minnsta kosti með sjálfum sér – að í stórum dráttum hafa mál þróast í þá átt sem Davíð hefur beitt sér fyrir og að árangurinn er að miklu leyti því að þakka. Frelsi hefur aukist í efnahagsmálum, skatthlutföll hafa lækkað og ríkið hefur á mörgum veigamiklum sviðum dregið sig út úr atvinnurekstri. Og það skiptir einnig máli að ef fram fer sem horfir munu mál halda áfram að þróast í sömu átt þar sem stefnt er að áframhaldandi lækkun skatthlutfalla og sölu á stóru ríkisfyrirtæki, Símanum. Með þessu er því ekki haldið fram að allt hafi þróast til betri vegar eða að allt sé eins og það getur best orðið – reglulegir lesendur Vefþjóðviljans vita að blaðið telur að eitt og annað mætti betur fara. Þetta eru engu að síður meginstraumarnir og mestu skiptir að þeir hafa verið og eru í rétta átt og hafa fært landsmönnum mikinn ávinning.