Föstudagur 3. september 2004

247. tbl. 8. árg.

Á

Svona rættust spár umhverfisverndarsinna um hungur í heiminum.

áttunda áratug síðustu aldar var svartsýni og bölmóður mjög í tísku á Vesturlöndum. Ungir menn hættu jafnvel námi því það væri hvort eð er til einskis í heimi sem stefndi til heljar. Í þessu bleksvarta andrúmslofti varð umhverfisverndarhreyfingin til. Meðal þess sem umhverfisverndarsinnar á þessum tíma töldu alveg augljóst var að vegna mengunar og „offjölgunar mannkyns“ væri þess skammt að bíða að hungursneyð myndi fella stóran hluta mannkyns og þeir sem eftir stæðu hefðu ekki annað að gera en slást um það litla vatn og fæðu sem eftir væri.

Nú liggur það hins vegar fyrir að eitt helsta vandamál vestrænna manna á ofanverðri tuttugustu öldinni tengdist vissulega mat en ekki á þann hátt sem umhverfisverndarsinnar héldu. Ofát og offita er nú talið eitt helsta heilbrigðisvandamál Vesturlanda. Spurningin sem vaknar í framhaldinu er því auðvitað hvers vegna menn fóru að innbyrða meira en þeir þurfa? Það dugar líklega ekki sem skýring að mönnum hafi verið svo létt við að heimsendaspár umhverfisverndarsinnar rættust ekki að þeir hafi ákveðið að gera framvegis vel við sig í mat og drykk.

Offitu fylgir ýmisleg áhætta en á tíunda áratugnum komu fram lyf eins og Pravachol og Lipitor sem vinna á kólesteróli og minnka líkurnar á alvarlegum áföllum vegna þess. Lyfin auðvelda mönnum því að eta óhóflega og vera feitir. Framfarir í læknavísindum eru miklar og gera má ráð fyrir að þær dragi enn úr áhættunni sem fylgir offitu. Það er sennilega ekkert gott við offitu en neikvæðar afleiðingar hennar eru færri en áður og mun vafalítið halda áfram að fækka. Því kjósa fleiri en áður að vera feitir.

Önnur skýring á skvapinu gæti legið í öllum „fitusnauða“ og „fitulausa“ matnum sem kom á markaðinn á tíunda áratugnum. Með honum var hægt að réttlæta mun meira át en áður. Sumir hafa vafalaust náð að nýta sér þennan fitusnauða kost til að halda línunum í lagi en ekki allir. Maður sem sætti sig ekki við að verða feitur af því að eta eina skál af ís á hverju kvöldi er til í að þola fituna á sjálfum sér fyrir tvær skálar af fitusnauðum ís.

Sem kunnugt er hefur feitur matur nú vikið af aftökulista næringarspekúlanta fyrir kolvetnaríkum mat. Sömu staðir og buðu áður upp á fitusnautt fæði bjóða viðskiptavinum sínum nú í raun upp á að fá aukaskammt af fitu í stað kolvetna.

Nú er jafnvel hægt að fá „kolvetnasnauðan hamborgara“ á veitingastöðum. En til að bæta sér upp að fá ekkert brauð, grænmeti og franskar með borgaranum er auðvitað rakið að fá sér tvö kjötbuff og aukalega af osti og beikoni.

Vefþjóðviljinn býður lesendum sínum auðvitað upp á megrunarráð. Þeir sem vilja draga út áti geta gert það með því að kaupa minni mat en veita í staðinn frjálsum framlögum til Vefþjóðviljans en útgáfan og kynning á henni er sem fyrr fjármögnuð með slíkum framlögum lesenda.