Þ
Ríkisstyrkir eru notaðir til að berjast fyrir verri lífskjörum landsmanna. |
renn ríkisstyrkt samtök, Samtök iðnaðarins, Alþýðusamband Íslands og Bændasamtök Íslands standa nú fyrir „landsátakinu“ Veljum íslenskt – og allir vinna. Átakið hefur það yfirlýsta markmið að efla verðmæta- og atvinnusköpun í landinu, en hefur í reynd þveröfug áhrif – ef það heppnast. Nú er vitaskuld hverjum manni frjálst að kaupa þær vörur sem hann vill, jafnvel þótt þær séu dýrari og verri en aðrar vörur. Þannig er svo sem ekkert við það að athuga að einhver ákveði að kaupa aðeins vörur sem framleiddar eru við tiltekna götu eða í tilteknu póstnúmeri, þetta geta menn gert og litið svo á að talsvert sé á sig leggjandi að styrkja þannig þá sem starfa á tilteknum svæðum. Þetta er út af fyrir sig gott og blessað og ef til vill ekki verra áhugamál en hvað annað. Með því er hins vegar ekki sagt að eðlilegt sé að ríkisstyrkt samtök eyði skattfé til að halda fram staðleysum á borð við þá að ef allir geri þetta þá vegni öllum betur.
Gefum okkur að í dag verði stofnuð Samtök íslenskra heimila og að þau verði óðara sett á ríkisframfæri þar sem heimilin séu jú hornsteinn landsins eins og það er stundum kallað. Alls ekki vitlausari ríkisstuðningur en stuðningurinn við samtökin sem standa að átakinu um að velja íslenskt. Gefum okkur svo að á morgun fari Samtök íslenskra heimila í auglýsingaherferð þar sem landsmenn séu hvattir til að framleiða sem mest innan heimilanna í stað þess að nota aðkeypta framleiðslu. Landsmönnum væri í auglýsingunum sagt að með auknum heimilisiðnaði mætti skapa mikla atvinnu. Auðvelt er að sýna fram á að svo væri, þar sem þeir landsmenn sem hlýddu ákalli Samtaka íslenskra heimila sætu eftir það við rokka og prjóna á milli þess sem þeir strokkuðu smjör og fylltu vambir af mör og blóði. Vitaskuld væri ekkert við það að athuga að menn settust við rokkana og prjónana, en það væri nokkuð langt gengið ef samtök með styrk frá ríkinu tækju sig til og hvettu til þess háttar iðju á þeirri forsendu að með henni myndi hagur landsmanna vænkast.
Landsmenn væru ekki betur settir ef þeir settust aftur við rokkana í stað þess að kaupa flíspeysur eða ámóta varning úti í búð og þeir verða ekki heldur betur settir með því að kaupa frekar íslenska framleiðslu en erlenda. Ef íslenska framleiðslan er betri en sú erlenda fer best á því að landsmenn kaupi íslensku framleiðsluna, en að öðrum kosti er best að þeir kaupi þá erlendu. Og þetta er reyndar það sem gerist án nokkurrar hjálpar frá ríkisstyrktum sérhagsmunasamtökum. Það kostar hins vegar stórfé – og það fé kemur úr vösum almennings – að sannfæra fólk um að kaupa vörur þrátt fyrir að þær séu ekki bestu vörurnar heldur vegna þess að þær séu framleiddar hér en ekki þar. Það kostar mikið fé að sannfæra fólk um að rýra kjör sín.
En burt séð frá þessum augljósu sannindum, sem að minnsta kosti öllum öðrum en launuðum talsmönnum sérhagsmuna hafa verið ljós í ríflega tvær aldir, þá er sérstakt rannsóknarefni hvers vegna Samtök iðnaðarins telja nú svo mikilvægt að takmarka viðskipti við önnur lönd. Samtökin hafa nefnilega háð aðra og næstum jafn vitlausa baráttu – og auðvitað líka fyrir skattfé – fyrir því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og taki upp evruna. Hvernig fara þessi tvö baráttumál Samtaka iðnaðarins saman? Og fyrir áhugamenn um kærur til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna ólíklegustu hluta er ekki úr vegi að hugleiða hvernig það gengur upp að íslenska ríkið niðurgreiði þennan stuðning við íslenska framleiðslu. Hvað finnst hinum Evrópusinnuðu Samtökum iðnaðarins um það?