O rkuveita Reykjavíkur hefur reynst Reykvíkingum dýr. R-listinn, með Alfreð Þorsteinsson yfirborgarstjóra í broddi fylkingar, hefur farið út í ótrúlega ævintýralega og óarðbæra útþenslu fyrirtækisins, að því er virðist eingöngu í því skyni að auka umsvif og völd þessa sama Alfreðs. Nýjustu fréttirnar af ævintýrum Orkuveitunnar eru þær að upplausnarvirði fjarskiptafyrirtækisins Tetra-Íslands sé ekkert, því að eignir þess séu verðlausar eða verðlitlar. Þetta kemur fram í skýrslu fjármálastjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, en þar segir einnig að þrátt fyrir verulega og nýlega hækkun gjaldskrár dugi tekjurnar engan veginn til reksturs til frambúðar, hvað þá að fjármunir til endurnýjunar og uppfærslu Tetra-kerfisins séu fyrir hendi. Tetra-ævintýrið, sem hefur kostað greiðendur orkureikninga í Reykjavík hundruð milljóna króna, hófst með 250 milljóna króna kaupum Línu.Nets, fyrirtækis Orkuveitunnar, á Irju fyrir fáeinum árum. Kaupandinn afskrifaði kaupverðið óðara um rétt tæp 100%, en þeim sem vonuðust til að fall yrði fararheill varð ekki að ósk sinni, því að síðan hefur Orkuveitan þurft að dæla peningum inn í tetra-ævintýrið, sem þrátt fyrir það er nú talið verðlaust.
Glæsilegar fjárfestingar Alfreðs og félaga í R-listanum á kostnað orkunotenda í Reykjavík einskorðast ekki við að kasta fé í tetra-tæknina. Lína.Net hefur verið mun stærri biti fyrir orkunotendur og kostnaður þess misheppnaða fjarskiptafyrirtækis er talinn í milljörðum króna. Fleiri ámóta fyrirtæki mætti nefna, en eitt ævintýrið stendur þó upp úr öllu hinu. Ekki vegna þess að það sé dýrasta ævintýrið, heldur vegna þess að það er fjarstæðukenndast. Hér er vitaskuld um að ræða risarækjueldi Orkuveitu Reykjavíkur, en sem kunnugt er ákváðu Alfreð og R-listinn fyrir nokkrum misserum að fara út í misheppnað risarækjueldi eftir nokkrar misheppnaðar fjárfestingar á fjarskiptasviðinu. Þegar horft er yfir feril Alfreðs og félaga hjá Orkuveitu Reykjavíkur hljóta menn að spyrja, hvað næst? Hvaða hugmynd verður næst nægilega ótengd rekstri orkuveitu og nægilega líklega til að misheppnast, til að Alfreð telji hana þess virði að kasta fjármunum Reykvíkinga í hana? Um þetta er engin leið að spá, en hvað með krókódílaeldi eða kyrkislöngurækt? Skyldi ekki mega nota orkuna til svo þarfra verkefna?
Svo þarf auðvitað ekkert að einskorða starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur við framleiðslu landbúnaðar- eða sjávarafurða, Orkuveitan gæti farið út í alls kyns aðra starfsemi þar sem sérþekking starfsmanna og orka fyrirtækisins nýtist með álíka hætti. Fyrirtækið hefur til að mynda góða reynslu af því að byggja risastórt hús og gæti vel haslað sér völl á því sviði. Orkuveitan gæti reynt að sannfæra einkafyrirtæki um að þau þurfi líka alltof stór hús sem kosti hátt á fjórða milljarð króna. Og ef engin eftirspurn verður eftir öðrum höllum sem Orkuveitan myndi reisa gæti hún alltaf gert það sama og hún hefur gert við aðrar fjárfestingar sínar; afskrifað hallirnar og haldið því fram að þær væru að minnsta kosti til prýði í borginni þó að enginn vildi nota þær. Hvaða máli eins og það skipti þótt nokkrir milljarðar í viðbót fari í súginn hjá Orkuveitunni? Hún bara hækkar orkuverðið enn og aftur – það er ekki eins og viðskiptavinirnir geti leitað annað.