Leikið hefur grunur á að foreldrar hafi með ýmsum hætti leitast við að hafa áhrif á tekjur sínar til hækkunar á því tímabili þegar þeim er ákvarðað fæðingarorlof. |
… |
Grunur hefur vaknað um að foreldrar sem starfa á þeim tíma sem þeir eru skráðir í fæðingarorlof fái launagreiðslurnar greiddar á næstu mánuðum á eftir. Verði foreldrar uppvísir að slíku broti varðar það sektum. |
– Steinþór Haraldsson fjallar um eftirlit skattyfirvalda með þiggjendum fæðingarorlofsbóta í nýjasta tölublaði Tíundar. |
Þ egar frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof var til umfjöllunar í nokkra daga á Alþingi vorið 2000 leyfði útgáfufélag Vefþjóðviljans sér að senda þingmönnum nokkrar ábendingar um efni frumvarpsins. Sem kunnugt er hafa útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins vegna hins nýja fæðingarorlofs farið langt fram úr því sem lagt var upp með í byrjun og voru útgjöldin þó áætluð mikil og talin mesta varanlega aukning ríkisútgjalda um langa hríð. Í vetur þurfti því að bjarga Fæðingarorlofssjóði frá gjaldþroti með sérstökum aðgerðum. Þær aðgerðir voru eins og allt er þennan sjóð varðar algjörlega á kostnað skattgreiðenda. En þessi útgjaldasprenging er ekki til umfjöllunar hér heldur ein af hugsanlegum skýringum á henni.
Í fyrrnefndum ábendingum til þingmanna varaði félagið meðal annars við að ævintýralegir misnotkunarmöguleikar fælust í því kerfi sem tryggja á nýbökuðum foreldrum bætur sem nema 80% af launum á meðan töku orlofsins stendur. Ef marka má grein Steinþórs Haraldssonar í Tíund, fréttablaði ríkisskattstjóra, er ýmislegt af því sem varað var við þegar komið á daginn. Grunur um misnotkun er svo sterkur að grípa þarf til aðgerða og jafnvel refsiúrræða. Eins og svo mörg önnur kerfi hins opinbera er fæðingarorlofskerfið því farið að hlaða utan á sig eftirliti og annarri atvinnuskapandi starfsemi fyrir ríkisstarfsmenn. Til að sporna gegn tveimur af mörgum leiðum til að misnota orlofskerfið verður það frá og með næstu áramótum „samkeyrt“ skattkerfinu. Skattyfirvöldum hefur verið falið að hafa eftirlit með þeim sem eru í fæðingarorlofi, á leið í orlofið eða hafa nýverið lokið því. Á meðan barnið er í ungbarnaeftirliti verða foreldrarnir í skatteftirliti.
Þótt yfirvöldum muni með þessu takast að leiðrétta ofgreiddar bætur í fæðingarorlofi, fæla einhverja frá því að gefa upp of háar viðmiðunartekjur eða vinna í orlofinu þá fer því fjarri að búið sé að birgja brunninn. Stórir hópar manna vinna nú þegar að hluta eða að öllu leyti heiman frá sér og engin leið fyrir skattyfirvöld að fylgjast með því hvað menn eru að gera; skrifa grein á vefrit, búa til leitarvél sem skákar Google, „taka stöðu“ á verðbréfamarkaði, skrifa næstu metsölubók, prjóna ullarsokka fyrir Impreglio eða færa bókhald. Það er auðvitað nær útilokað fyrir skattyfirvöld að hafa eftirlit með því hvar menn eru að gera þegar þeir eiga að vera með hugann við hvítvoðunginn. Nema nú sé loksins komið að því að eftirlitsmyndavélar verði settar upp á heimilum til að gera eftirlitið skilvirkara.