Fréttamenn hafa gaman af því að reyna að láta hlustendur hlaupa apríl; ljúga upp einhverjum stórmerkjum sem eigi sér stað fyrsta daginn í apríl og nú sé að láta ekki happ úr hendi sleppa. Þetta er notalegur siður, þó árangurinn sé kannski ekki mikill, ef hann er mældur af fjölda þeirra sem láta sjáanlega plata sig. En þeir sem verða svekktir yfir því að hafa verið látnir hlaupa apríl, þeir geta huggað sig við það að fjórum mánuðum síðar rennur stund hefndarinnar upp. Þá eru fréttamenn látnir hlaupa ágúst. Þá fara góðu málefnin á stjá. SÁÁ er dæmigert félag sem er lagið við þetta, en það félag rekur jafnan upp ramakvein í ágústmánuði og finnur rándýran og „kostnaðarlið“ sem „ekki var gert ráð fyrir“ áður og en hins vegar er algerlega nauðsynlegt að samtökin „fái bættan“. Þingmenn koma af fjöllum og heilbrigðisráðherra opnar augun jafnvel til hálfs. Og að því búnu gefur Jón Kristjánsson eftir, eins og hann hefur sem vinnureglu.
Spítalarnir taka hins vegar ekki þátt í ágústleikunum. Þeir bíða alltaf þar til þing er komið saman því annars verður engin utandagskrárumræða. Á krítískum punkti í fjárlagaumræðunni tilkynna þeir að nú verði þeir að taka fyrir allar glasafrjóvganir. Eða vísa heilabiluðum út, og það samdægurs. Og alltaf skulu fjölmiðlar og stjórnarandstaðan hlaupa eftir leikaraskapnum. Jafnvel sú staðreynd að sparnaðurinn af þessum aðgerðum spítalans yrði nær enginn, þá vekur það engar grunsemdir. Fréttamenn virðast aldrei sjá að tilgangurinn er sá einn að gefa fólki þá tilfinningu að heilbrigðiskerfið búi við mikinn fjárskort og að þar hafi allt verið skorið niður að neyðarmörkum. Nú sé svo komið að næst þurfi glasafrjóvganirnar að fara og næst komi röðin jafnvel að námsferðum lækna.
FFlestir fjölmiðlar eru fullir af einhverjum mismælum George W. Bush forseta Bandaríkjanna og jú, þau voru reyndar nokkuð skondin. En er ekki dálítið merkilegt, að þeir sem aldrei telja slík mismæli fullrædd eða tæmdar þær ályktanir sem draga má af þeim um atgervi, innræti, hæfni og hver veit hvað þessa manns, að þeir hafi jafnan orðið hinir verstu þegar einhver vildi ræða það að forveri hans, Bill Clinton, hafi beinlínis logið eiðsvarinn fyrir rétti? Það var víst hreint samsæri vondra hægri manna að minnast á það.