Í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, líkt og ýmsum öðrum kosningum hér og þar um heiminn, eru menntamál ofarlega á baugi. The Wall Street Journal fjallar um ákall forsetaframbjóðanda demókrata, Johns Kerrys, um „menntun sem er fjármögnuð að fullu [af hinu opinbera], án þess að nokkurra spurninga sé spurt.“ The Wall Street Journal telur nokkuð langt gengið, „jafnvel fyrir öldungadeildarþingmann frá Massachusetts“ að vilja fleygja skattfé í vandamál án þess að spyrja nokkurs, en ósk þessa efnis sé enn sérkennilegri í ljósi nýrrar rannsóknar frá Nelson A. Rockefeller Institute of Government.
The Wall Street Journal segir að hvert svo sem vandamálið kunni að vera hvað menntun snertir þá sé vandamálið að minnsta kosti ekki skortur á vilja til að verja auknu fé til málaflokksins. Á árunum 1997 til 2002 hafi ríkin og sveitarstjórnirnar aukið útgjöldin um 39% og þegar leiðrétt hafi verið fyrir verðbólgu og fjölgun nemenda hafi aukningin verið næstum 17%. Aukningin hafi verið í öllum ríkjunum, jafnvel þeim sem hafi búið við miklar hömlur á skattheimtu og útgjöldum. The Wall Street Journal lagði mat á hvað fengist hefði í staðinn fyrir þessa auknu fjármuni til menntamála og miðaði í því sambandi við lestrarkunnáttu. Niðurstaða blaðsins er að ekkert gagn sé í auknum útgjöldum. Sum ríki bæti sig þrátt fyrir litla útgjaldaaukningu en hjá öðrum versni ástandið þrátt fyrir að mikla útgjaldaaukningu. Og áberandi sé, að þrátt fyrir að hafa aukið útgjöld til menntunar um 46% hafi það svæði sem eyði mestu, District of Columbia, ekki bætt sig meira en Flórída, sem eyði minnstu. Flórída sé hins vegar fremst í flokki í umbótum og þar sé lögð áhersla á aukið valfrelsi og ábyrgð.