Það hefur ýmislegt verið sagt um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að afnema breytingar á útvarps- og samkeppnislögum frá því í vor og leggja þess í stað fram nýtt frumvarp. Þessi aðferð, það er að þingkosningar líði milli samþykktar og svo gildistöku eftir endursamþykkt er sú aðferð sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir við samþykkt mikilvægustu mála, stjórnarskrárbreytingar. Ef Alþingi ákveddi til dæmis að afnema forsetaembættið og gera Ísland að konungsríki að nýju, þá yrði sú aðferð notuð. Ef menn ákveddu að afnema trúfrelsi, kosningarétt eða fundafrelsi sóknarbarna í Nessókn þá yrði það, samkvæmt stjórnarskránni, gert með þeim hætti að alþingi samþykkti lög um það, þau lög tækju gildi sem stjórnarskrárbreyting eftir að nýtt þing hefði samþykkt þau að loknum þingkosningum. Það væri merkileg hugmynd, að breytingar á útvarps- og samkeppnislögum, eins og nú eru til umfjöllunar, ættu að fá viðameiri meðferð en slíkar breytingar.
Ef forseti Íslands ætti að synja hinu nýja lagafrumvarpi staðfestingar, hvað væri hann þá að segja? Með slíku verki myndi hann ákveða að það væri minna mál að setja ákvæði fjölmiðlalaganna í stjórnarskrá en í venjuleg lög. Ef alþingi ákveddi að setja samkeppnisreglur fjölmiðlalaganna í sjálfa stjórnarskrána þá yrði það gert með þeim hætti að þingið samþykkti lögin sem stjórnskipunarlög og svo færu þau í stjórnarskrá eftir að nýtt þing myndi gera það sama eftir kosningar. Og þá væru fjölmiðlalögin orðin að stjórnarskrárákvæðum! Það frumvarp sem nú er til meðferðar hjá Alþingi gerir vitaskuld aðeins ráð fyrir því að sett verði almenn lög, sem hvenær sem er mætti breyta og myndu vitaskuld ætíð víkja fyrir yngri lögum. Og þingmeirihlutinn býður upp á það samt að lögin taki ekki gildi fyrr en nýtt þing hefur komið saman og það fengið færi á að gera hverjar þær breytingar sem það vill.
Í stuttu máli má því segja að fjölmiðlalögin taki ekki gildi fyrr en bæði núverandi þingmeirihluti og sá þingmeirihluti sem verður til eftir næstu þingkosningar telja þau viðunandi. Best væri auðvitað að hvorugur teldi svo vera og Íslendingar haldi áfram að búa við frjálslyndari löggjöf um einkarekna fjölmiðla en flestar aðrar þjóðir.
Þótt þetta liggi fyrri ætlar stjórnarandstaðan að halda áfram að ræða „málsmeðferðina“ í stað þess að eyða orðum á efnisatriði málsins sjálfs og skýra fyrir okkur hvernig fjölmiðlalög hún myndi setja ef hún kæmist í aðstöðu til þess.