S érstakur baráttumaður fyrir „umræðustjórnmálum“ hefur tekið sér stöðu fyrir utan Alþingishúsið á Austurvelli sem varaþingmaður Samfylkingarinnar. Þessi baráttumaður fer mikinn gegn fjölmiðlafrumvörpum síðustu vikur og telur auðvitað alveg sérstaklega skorta á umræður, vinnubrögð og lýðræðislega vitund meirihluta á Alþingi. Þessi lýðræðislega kjörni meirihluti mun sérstaklega hafa brotið gegn kenningum „umræðustjórnmálanna“ með því að telja að komi upp ágreiningur á þingi um lagasetningu á milli meirihluta og minnihluta, þá skuli meirihlutinn ráða.
Þessi sérstaki talsmaður opinna og lýðræðislegra umræðna var borgarstjóri í Reykjavík í níu ár, árin 1994-2003, og það mætti búast við að þar hefði hann beitt sér fyrir opnum og lýðræðislegum umræðum. Og væntanlega gerir borgarstjórinn fyrrverandi það enn, því hann á enn sæti í borgarstjórn. Í vikunni bárust þær fréttir frá yfirstjórn borgarinnar að skrifstofustjóri borgarinnar hefði verið látinn setja saman minnisblað og dreifa því á fundi borgarráðs, þar sem hann áréttaði þær reglur borgarinnar að óheimilt væri að vitna til annars sem gerðist á fundum nefnda og ráða borgarinnar en þess sem bókað hefði verið sérstaklega í fundargerðir.
Umræðustjórnmálin lýðræðislegu heimila sem sagt ekki að borgarfulltrúar geti greint kjósendum frá nema hluta þess sem gerist á fundum ráða og nefnda borgarinnar. Aðeins þann hluta umræðna í nefndum og ráðum sem festur hefur verið á blað – og það er væntanlega mikill minnihluti umræðnanna – má færa í tal opinberlega. Ef aðrir en R-listinn ættu þarna hlut að máli er hætt við að einhverjir fjölmiðlar og álitsgjafar myndu sleppa sér yfir skorti á lýðræðislegum vinnubrögðum. Menn myndu væntanlega spyrja hvað borgarfulltrúar hefðu að fela fyrir kjósendum í borginni og talið myndi beinast að reykfylltum bakherbergjum þar sem tortryggilegar ákvarðanir væru teknar. En ekki að þessu sinni. Það eru nefnilega R-listinn og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem bera ábyrgð á því að „loka á umræður“ og þá er allt í stakasta lagi.